30.5.2006 | 10:39
Allt að gerast !
Það er nú aldrei lognmolla í þessu lífi. Nú vorum ég og Stefanía að flytja aftur og fluttum í þetta skiptið í Hesthamra 9 í kjallarann. Þar erum við með huggulega íbúð sem við ætlum okkur að gera kózý. Ég veit að þeir segja að æfingin skapi meistarann en ég bara því miður er orðinn alltof vanur þessu og þetta er orðið bara einfaldlega leiðinlegt.
Svona er flutningasagan mín og Stefaníu frá upphafi.Jún 2003 Ég flyt í Engihjalla ásamt Gylfa og Óla.
Nóv 2003 Stefanía flytur inn til okkar vinanna.
Feb 2004 Ég og Stefanía flytjum til Teddu í Kleppsveginnn
Jún 2004 Ég og Stefanía flytjum til foreldra minna í Fannafoldina
Ágú 2004 Ég og Stefanía flytjum í Grænukinn
Des 2004 Ég og Stefanía flytjum til foreldra minna
Jan 2005 Ég og Stefanía flytjum til Teddu í Kleppsveginn
Okt 2005 Ég og Stefanía flytjum til Ömmu í Stigahlíðina
Des 2005 Ég og Stefanía flytjum til foreldra minna í bílskúrinn.
Maí 2006 Ég og Stefanía flytjum í Hesthamra Stærðfræðingurinn í mér segir mér að þetta eru 10 flutningar á nákvæmlega 3 árum. Þessi jafna sýnir kanski best hversu mikið við flytjum. 36 mánuðir / 10 flutningar = 3,6 mánuðir á milli flutninga að meðaltali. S.s. á tæplega 4 mánaða fresti flytjum við. Til að vera nákvæmur notum við þessa formúlu. 30 dagar / 100 = 0,3 x 60 = 18 dagar. Þannig að m.v. að við fluttum 28. maí 2006 ættum við að flytja aftur skv. lögmálinu góða þann 15. september 2006. En það næst ekki annar flutningadagur skv. reglunni því næsti flutningadagur þar á eftir væri 2. janúar. Svo fór ég að leika mér ennþá meira með stærðfræði. Ef Helgi á fjögur epli og Stefanía á tvö epli hvað eiga þau þá mörg epli saman.
Svar: mínus 12 epli. Útskýringin er einföld. Af eplunum sem við þénum er tekinn 5% lífeyrissjóður svo þetta eru í raun bara 5.7 epli. Þar á eftir er tekinn 40% skattur svo það skilur í raun og veru bara 3.42 epli eftir. Bankinn hirðir að sjálfsögðu 0.26 epli í færslugjöld og það skilur eftir 3.16 epli. Bensínlítrinn hækkaði uppí 0,16 epli pr. líterinn og við þurftum að keyra fyrir 100 l. þennan mánuðinn svo við fórum í bankann og tókum yfirdrátt og keyptum okkur bensín fyrir 16 epli. Sem skilur okkur eftir með -12,84 epli. En Stefanía fann happaþrennu og vann 0,84 epli svo allt blessaðist þetta nú. Með það í huga fór ég að hugsa til þess þegar pabbi ætlaði að kenna mér að spara og sagði m.a. að eplin vaxa ekki á trjánum og að hann skiti ekki eplum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.5.2006 | 11:45
Orkan í hámarki !
Sunnudagurinn byrjaði á kveðjustund. Stefanía var á leið norður í heimsókn til pabba síns og Ágústu og þessvegna þurfti ég að rífa mig upp á rassgatinu með eftirköst eftir átök kvöldsins sem á undan leið. Ég skutlaði henni út á flugvöll og kvaddi hana með faðmlagi og kossi. Eins og í alvöru amerískri ástarþvælu stóð ég við grindverkið og horfði á eftir flugvélinni þjóta af stað uppí loftið. Þetta urðu viss viðbrigði þar sem ég og hún höfum varið nánast öllum stundum saman síðan við kynntumst og ekki mikið upplifað fjarlægðir. En að sjálfsögðu er þetta ekki bara eðlilegt heldur bara nauðsynlegt að fá smá tíma í sundur til að geta verið þakklátur fyrir það sem við eigum saman og ég með mína óstöðvandi jákvæðni ákvað að nýta tækifærið í að gera eitthvað af viti. Og viti menn við tók einn öflugasti dagur sem ég hef átt í langan tíma og ég fann fyrir einhverri gamalli orku krauma í mér. Af flugvellinum hélt ég heim á leið og ákvað að leggja mig, það enntist í hálftíma þar sem ég vildi nýta daginn. Ég hringdi í nokkra vini og kunningja og eins og ég gat sagt mér sjálfur voru þeir allir þunnir og vitlausir heima sofandi. Ég ákvað á þeirri stundu að láta það ekki stoppa mig og ég fór einn í sund, synti smá og slakaði á í pottinum. Að því loknu ók ég niðrá Shell til að þrífa bílinn sem ég og gerði. Að innan sem utan, hátt og lágt með gljásápu, tjöruleysi og öðrum hjálpartækjum. Þegar ég sá að gljáinn yrði ekki meiri hringdi ég í félaga minn og reif hann með mér úr draumaheiminum og niðrí bæ. Þar slökuðum við á í sólinni á Austurvelli áður en við héldum í Kringluna í kaffibolla. Það var svo gaman að hitta gamlan vin í fyrsta sinn í langan tíma að þegar hann fór heim sótti ég bara næsta og fjörið hélt áfram. Fyrst kíktum við í heimsókn til Tammý frænku sem var að kaupa sér íbúð.Þar á eftir skelltum við okkur í Álfheima til að fá okkur ís því í hitanum er alltaf gott að fara í ísbíltúr. Eftir það urðum við eirðarlausir og héldum í áttina til Elliðavatns þar sem við ætluðum að kanna hvort einhverjir veiðimenn hefðu náð í afla en áður en við náðum alla leið stoppuðum við hjá Rauðavatni og Árbænum þar sem ég varð vitni að sinubruna. Ég stoppaði bílinn og hljóp út og skildi vin minn eftir með eitt stórt spurningarmerki í framan. Ég hringdi um leið í slökkviliðið og ræsti þá út áður en ég hljóp í nærliggjandi hús og varaði íbúa við sívaxandi eldi. Ég fékk lánaða hrífu og var að byrja að berjast við eldhafið til að bjarga því sem bjarga mátti þegar slökkviliðið mætti á svæðið aðeins 3-4 mínútum eftir að ég hringdi. Þegar eldurinn hafði verið yfirbugaður héldum við áfram okkar leið uppá elliðavatn og þar fengum við delluna beint í æð. Við keyrðum beinustu leið uppá Reynisvatn þar sem við keyptum okkur leyfi og svo fórum við heim að ná í stengurnar. Við slökuðum á við bakka Reynisvatns í 3 klukkutíma og renndum fyrir fiskinn sem vildi ekki bíta á. Þegar uppgjafarstund kom í veiðina héldum við heim á leið þar sem Óli fór heim að borða og ég fór heim og tók til í íbúðinni og þreif hana hátt og lágt á hálftíma klukkutíma. Orkan var alveg í hámarki. Óli og Keli komu skömmu síðar og við horfðum á video með snakk og kók. Að því loknu gafst ég upp, rak þá heim og fór að sofa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2006 | 15:41
Helgin 5-7 maí
Þetta var viðburðarrík helgi eins og þær hafa verið margar í mínu lífi. Helgin byrjaði á fjörugum föstudegi þar sem ég skellti mér á Torvaldsen að loknum vinnudegi. Þar var samankominn hópurinn sem er búinn að fylgjast að í gegnum síðasta Dale Carnegie námskeið sem ég var á. Við borðuðum saman mat og skemmtum okkur fram á nótt. Maturinn var ágætur fyrir utan forréttinn sem ég hefði alveg getað sleppt. Þeir reiddu fram lax, skötusel og túnfisk nema hvað að þetta var allt hrátt. Ég er algerlega á móti sushi tískunni og hvað þá frekar græni viðbjóðurinn sem hét Wasabi og er sterkasti fjandinn sem fyrirfinnst sunnan Norðurpólsins. Hins vegar var kjúklingurinn í aðalréttinum og blauta súkkulaðikakkan alveg til fyrirmyndar. Eftir mat var hlegið, sprellað og slegið á létta strengi. Þegar leið á kvöldið tók ég áskorun og hélt uppistand til að skemmta liðinu. Stressið hafði verið að fara með mig nema hvað að ég fékk alla til að hlæja og fékk gott hrós fyrir svo eitthvað hlýt ég að hafa gert rétt. Að því loknu var dansað fram á rauða nótt eða þar til ég gafst upp og hélt heim á leið um þrjúleitið.
Laugardagssólin reis á loft og bar með sér ótrúlega gott veður. Því miður vaknaði ég heldur seint eftir átök liðinnar viku og fjörugs föstudags. Ég og Stefanía settum kraft í verkið. Hún lærði fyrir prófin og ég tók til hendinni við þrif og skipulag. Allt endaði þetta með snyrtilegri íbúð og kózý kvöldi. Fyrst kíktum við í stutta heimsókn til Fribbu vinkonu og að því loknu kom María í heimsókn til okkar. Við fengum okkur pizzu á meðan ég sinnti reglulegu iðjunni minni við að gera við tölvur. Það er eins og bilaðar tölvur elti mig uppi. Við horfðum á video fram á nótt því það er svo gaman að vera til.
Sunnudagurinn vakti okkur með alveg geggjuðu verði. Þetta var svo flott veður þegar við komum út barasta 18° hiti og blankalogn. Við ákváðum að nýta tækifærið og fara uppí bústað til mömmu og pabba og hjálpa til. Þegar í Borgarfjörðinn var komið tók á móti okkur rok og leiðindarkuldi því norðanáttin bar með sér svalar fréttir af jöklunum í kring.
Nú er kominn mánudagur og um að gera að fara að nýta daginn í eitthvað gott. Um leið og vinnan er búin held ég af stað vestur ásamt Robba vini mínum að hjálpa pabba en meira því markmið er að klára einn þeirra fyrir lok þessarar viku. Á dagskránni þessa vikuna er svo gönguferð á Úlfarsfell með Prentmet á morgun sem ég og Einar Óli ætlum að skella okkur saman í, bústaðarvinna öll kvöldin og svo keilu/bjórkvöld hjá Prentmet næstu helgi á laugardeginum.
Og nú fer ég að verða duglegri við myndirnar, eitthvað dettur inn á næstu dögum.
Kveðja
Helgi Þór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2006 | 10:57
Sveitasælan í Kelduhverfinu !
Björg, Óli og Petta komu eldhress uppí Fannafold að sækja okkur skötuhjúin eftir að maður slapp úr vinnunni og að því loknu var haldið af stað norður. Þessi ferð fór fram úr öllum mínum vonum því þau eru reyndir ferðalangar og í fyrsta skipti í langan tíma var einhver tilbúinn til að tala um kennileiti, fjöll og firði. Þetta var landafræðikennsla í fyrsta klassa. Á Akureyri stoppuðum við á Greifanum og fengum okkur lostæti áður en haldið var áfram.
Þegar komið var norður stoppuðum við í Grásíðu að heimsækja Dodda langafa Stefaníu og mér þykir ótrúlegt að sjá hvað fólk út á landi er í góðu formi á eftstu árum. Þetta er alveg makalaust. Að því loknu kíktum við inná Garð 2 til að heimsækja lurkumlamda ferðalanga því eins og margir vita eflaust fuku Jónsi og Ágústa ásamt Einari Óla og Antoni Inga útaf þjóðvegi 1 við Víðigerði og bíllinn gjöreyðilagðist. Allir sluppu með lágmarks skrámur sem betur fer en einhver hefur vakað yfir þeim.
Hjalti vissi ekkert um komu okkar norður svo svipurinn var óborganlegur þegar hann sá okkur. Við skrúfuðum saman hjólið hans daginn eftir og á Sunnudeginum var haldið í ferminguna í kirkjunni. Það er rosalegur sjarmur yfir þessum sveitakirkjum. Að því loknu var haldið til veislu í Garði 2. Þetta var alveg rosalega skemmtilegt og gaman að geta mætt.
Heimleiðin í gær var þægileg því ég og Stefanía skiptumstum á að sofa eftir hasar helgarinnar. Samt verður maður svo afslappaður eftir svona að það hálfa væri nóg. Við stoppuðum í kaffi hjá mömmu og pabba og að því loknu héldum við í egg og beikon í Borgarnesi.
Þegar við komum heim horfðum við á sjónvarpið og rotuðumst. Eins gott og það gerist.
Nú styttist bara í næstu ferð norður því þá kemur sauðburður.
Kv. Helgi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2006 | 12:39
Nú hefst fjörið !
Nú sit ég í vinnunni og bíð spenntur eftir að vera sóttur því ég er að halda á vit ævintýranna um helgina til að hafa það eins gaman og hægt er.
Þar sem sumarið var loksins að koma í dag og fyrsta býflugan sýndi sig vil ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars. Farið vel með ykkur um helgina.
Kv. Helgi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2006 | 13:50
Ströndin í sumar !
Þá er vikan hálfnuð og aðeins tveir dagar þar til þriggja daga helgi byrjar. Ég sé fyrir mér slökunina í hyllingum. En hvað þarf ég að gera áður en helgin gengur í garð. Jú í kvöld þarf ég að mæta á millifund v. Dale Carnegie, síðasti millifundurinn. Eftir það ætla ég að reyna að þrífa bílinn minn... ??? reyna ???.... Ég ÆTLA að þrífa bílinn minn hátt og lágt svo ég geti stoltur horft á kerruna mína með beygluðu afturhurðinni. Ég er að spá í að taka hann svo svakalega vel að ekki bara ryksugan fær að þjóta yfir sæti og áklæði heldur mun ég drösla nýjabílalykt í hann, pússa mælaborðið með glansefni og teppahreynsa sætin. Svo ætla ég að taka einn bíltúr niður laugarveginn með græjurnar í botni, rúðurnar niðri, flottasta brosið og handleggnum tilt á gluggarkarminn. Verða sami gúmmítöffarinn og ég var þegar ég var 17.
Það verður notalegt að komast í ræktina. Ég er nú þegar búinn að missa 8kg á undanförnum vikum og ég ætla að halda áfram. Ég ætla að missa 4kg í viðbót og fara svo að massa mig upp. Markmiðið er að sjálfsögðu að vera flottastur á ströndinni næsta sumar. Það þarf bara að fara að velja hvaða strönd. Ég og Stefanía unnum miða til Evrópu fyrir tvo sem gildir út sumarið 2006 en bara hvert á að fara er spurningin. Ég vil að sjálfsögðu fara í menningarlega borgarferð og skoða París og Róm, slaka á í góðra vina hóp á kaffihúsi og eiga rómantískan kvöldverð á restaurant en Stefanía sér bara engan milliveg. Hún vil bara vera á ströndinni einhverstaðar og borða kebab. Svo ég er að spá í að gefa eftir, strandarpartý, tjútt á Spáni og smá brúnka hefur aldrei skaðað neinn. Svo er alltaf hægt að tækla borgarferðirnar þegar maður er orðinn gamall og þreyttur.
Nú er ég að spá í að nefna 10 jákvæða hluti um strandarferðir sem sýna hvað strandarferð er mismunandi fyrir single gaur og gaur í föstu sambandi.
Single gaur
- Bikini
- Kokteilar
- T strengir
- Gellur
- Kassi af bjór
- Skot eftir skot
- Froðudiskótek
- Fleiri gellur
- Strandarpartý
- Koma heim þunnur
- Sól
- Strönd
- Kærastan
- Strandblak
- Góður matur
- Kærastan aftur
- 1-2 bjórar
- Sólbrúnka
- Kærastan enn og aftur
- Vakna snemma fyrir flugið til að bera tuttugu og átta töskur á meðan kærastan skoðar sig í öllum speglum á leiðinni út á flugvöll til að skoða hversu brún hún er orðin.
En það er alveg yndislegt að vera gaur í föstu sambandi, sérstaklega þegar maður á svona sæta skvísu.
kv. Helgi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég veit það eitt að ég hugsa mikið til brandarans sem ég heyrði í æsku um hafnfirðinginn sem var spurður um hvað honum findist um bensínhækkanirnar. Hann var fljótur að svara því... Þær skipta mig engu máli því ég tek alltaf bara bensín fyrir 2.000,- kr.
Í alvöru talað finnst mér þetta ekki hægt hvað bensínið er orðið dýrt. 126,1 kr. pr. líterinn þegar ég fór á bensínstöð í dag og ekki ætlar það að skána. Ég er ekki gamall en ég man samt eftir að fara á Olís þegar stórt skilti sagði mér að 92. oktana bensín kostaði 64 kr. pr. líterinn. Varla getur 22. ára drengur talist það gamall að þetta sé í einhverri fortíð. Þegar ég fékk bílpróf görguðu allir yfir að bensínið var komið í 80 90 kr. Í dag fæ ég tankinn fyrir 6.000 kr. Ég get næstum keypt tvö strætókort fyrir fullan tank af bensíni.
Svo er það fyndna í þessu öllu saman að ríkið tekur meirihlutann af verðinu. Það var spekingur sem birti á heimasíðunni sinni útreikningana sem ég vildi svo vel til að lesa og þar fann hann út að ríkið tekur 56% af hverjum seldum lítra m.v. virðisaukaskatt og bensínálagningu. Mér finnst bara einhvernvegin eins og skatturinn og ríkið sitji um budduna mína hvert sem ég fer.
Nú legg ég til að við förum öll uppí Toyota umboðið, kaupum okkur Yaris og keyrum sparakstur með 4. l eyðslu á 100 km. Stríðum ríkinu og pössum peningana.
Kveðja
Helgi Þór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2006 | 02:01
Einkenni landanna !
Ég sit hér eins og áður og klukkan komin aðeins yfir háttatíma. Þegar ég er einn og Stefanía sofnuð get ég gert ýmsa hluti en oftast enda ég á því að hugsa um furðulegar staðreyndir. Eins og til dæmis einkenni landa. Ef ég segi Ástralía tengja allir við Kengúrur, Fosters öl eða Crocodile Dundee. Ef ég minnist á Frakkland eru ófáir sem hugsa um franska kossa og baguette. Bandaríkin minna að sjálfsögðu á herinn, grand canyon og feita hamborgararassa. Ísland var áður þekkt fyrir sviðakjamma, bónda, sjómenn og fyllerí. Í dag eru það businessmenn sem kaupa heiminn, spólandi vitlausar stelpur í downtown reykjavík og fyllerí. Það eina sem virðist aldrei sleppa frá Íslandi er djammið okkar, enda er það fjörugt. Bráðum getum við hætt að sýna Gullfoss og geysir því pissuhornið rétt hjá lækjartorgi verður tourist attraction #1. Síðan fyrir túrista sem vilja skoða söfn veðrur þjóðminjasafnið úrelt og við stofnum bara bjórminjasafnið (eða vísum þeim á ÁTVR). Blóðbankinn á eftir að gera eins og vodkaframleiðendurnir og setja % merkingar á vörurnar sínar. Hvað eigum við annað að gera. Við erum búin að reyna bandarísku menninguna með því að byggja risastóra verslunarmiðstöð sem lítur út eins og typpi, við erum í miðju kafi við að koma upp internettengdu landi í heild sinni þar sem sæluhús og kamrar verða með þráðlausu ADSL, við spurðum alla útlendinga how dú jú læk iceland þangað til skaupið gerði grín að því (Skaupið er síðan þáttur sem einhverra hluta vegna heil þjóð sameinast í að horfa á hversu magnað er það). Ég held að eina ástæðan fyrir að við séum ekki löngu búin að gefast upp á norður í rassgat stemningunni og róa með landið til englands til að tengja þau saman með framlengingarsnúru sé að þar eru svo herfilega ljótar konur. Í alvöru talað ég heyrði að Íslendingar hefðu farið í víking og stolið fallegum stelpum þaðan. Annað hvort er það lygasaga eða þá að þeir tóku hverja einu og einustu fallegu stelpu með sér og skyldu herfurnar eftir til að fjölga sér. Það má ekki segja svona (þess vegna er svo afskaplega gott að blogga þetta bara).
Ég veit... Við tökum bara það besta frá öllum. Frönsku kossana, Bandarísku hamborgarana, Ítalska pastað, þýsku pulsurnar og danska bjórinn, sænsku gleðina og norsku.... nei sleppum noregi... og svo bara enska hreiminn... MMM yes yes jolly good darling have a cup of tea
Þar til næst !
Helgi Þór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2006 | 16:25
Varadekk með reykingum og veiði !
Nú er það heilsan númer 1 2 og 3. Ég er búinn að vera alltof latur alltof lengi, varadekkið er farið að líkjast 38 mudder dekki og fyrr skal ég hundur heita áður en ég verð kominn með 44 slikka framan á mig. Ég er byrjaður í ræktinni ! Ég er ekki búinn að vera duglegur að mæta en nú verður breyting. Ég er nú þegar farinn að mæta oftar í sund og það er alveg ótrúlega hressandi iðkun. Hollari matur, próteinsheikar og jafnvel Herbalife er á matseðlinum fyrir næstu vikurnar. Út að hlaupa með hundinn og gönguferðir á fjöll. Við í Prentmet erum meira að segja farin að sameinast um reglulegar göngur á fjöll yfir sumartímann og fótbolta einu sinni í viku. Nú á að vera flottur með 6packið framaná í sólinni í sumar.
Svo er það bara spurningin um reykingarnar hvort það sé ekki að koma tími á að hætta þeim. Skyndilega hætti bara öll föðurfjölskyldan hennar Stefaníu að reykja, Robbi félagi hætti að reykja, vinnufélagar hætta að reykja og mér finnst eins og ég standi einn eftir með örfáum glæpamönnum sem svífast einskis í að menga andrúmsloftið --- Smokey and the bandits ---.
Svo er það mál á dagskrá númer 4 5 og 6. Veiðin er farin að kitla mig all svakalega. Hvenær kemst ég af stað í að byrja. Það er ýmislegt á dagskránni og ég skal hundur heita ef ég opna ekki Fiskerí Á la Carte eftir sumarið með bleikju í raspi og gufusoðinn lax. Ég er að spá í að eftir heimilishreingerninguna sem mun eiga sér stað í kvöld, líkamsræktina eftir vinnu, kvöldsundið og sjónvarpið að hnýta 2-3 flugur svona rétt til að fylla uppí dagskránna. Hvernig fer maður að þessu öllu saman, jú að sjálfsögðu með því að vera 6,0L V8 trukkur á 38 mudder dekkjum ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2006 | 00:47
Helgin 21. - 23. apríl
Það var fátt í tíðindum eftir föstudagskvöldið. Ég hafði verið nýbúinn að losa mig við víruspest í hálsinum og snúið aftur til vinnu, öll slökunin hafði hinsvegar haft þveröfug áhrif á mig miðað við hvað ætlað var og ég var alveg búinn á því eftir daginn. Á föstudagskvöldið kom ég heim til mín og byrjaði helgina á því að sofna snemma og sofa í rúma 16 tíma fram yfir hádegi næsta dag. Hversu slappt er þetta hjá 23. ára sprellara. En meira svekkjandi er að þessir þrír bestu dagar vikunnar eru skírðir beint í höfuðið á mér "Helgi", svo hleyp ég heim í háttinn
Laugardagur leit dagsins ljós og keppnisandinn búinn að færast yfir. Dagurinn fór í að dusta rykið af fótboltadótinu því ekki hafði það verið mikið notað frá því í fyrra. FBM fótboltamótið var að fara að byrja (FBM = Félag bókagerðarmanna). Prentmet átti skráð tvö lið á þessu móti og náðu bæði liðin glæstum árangri þar sem þau voru bæði saman í riðli og féllu bæði saman úr honum. Frábært ! En þetta er leikur og þetta var mjög gaman. Nú alveg eins og í fyrra eru allir að tala um að byrja að æfa saman til að vinna á næsta ári (eða bara að komast upp úr riðli). Sævar bílstjóri spurði mig að leikslokum hvort ég væri til í smá "gill" eins og kallinn kalar djammið svo snilldarlega en ég var bara búinn á því. Þolið mitt varð eftir í menntó eins og margt annað
Sunnudagur til sælu minnir mig að orðað hafi verið einhvertíman og svo sannarlega. Ræs klukkan 6:30 hjá mér og rúsínubollunni Stefaníu (Hún er samt ekkert svo krúttleg þegar hún er nývöknuð, alltaf jafn falleg en soldið grimm). Við brunuðum út á vit ævintýranna og hittum Robba þar sem við klifrðuðum yfir í trukkinn hans. Svo mættu Hjalti og Thelma á svæðið og saman héldum við uppá jökul. Reyndar var frændi hans Hjalta líka með í för en greyið lenti í því að rífa dekkið sitt í kaldadal og þurfti að halda aftur til byggða. Við jólasveinarnir áttuðum okkur hinsvegar á því að jólin erum löngu búin og héldum til fjalla en ekki dugar keppnisandinn alltaf. Eftir mikla baráttu við snjóinn, kuldabola, veðurguðina, risapolla og talstöðina sem var alltaf að detta, gáfumst við upp og játuðum okkur sigraða því það var varla 2ja metra færi. Ég fór út að leita að hjólförum og ég sást ekki eftir að ég fór fram fyrir húdd, rataði til baka þegar Robbi félaginn fór að flauta (Traustur og góður ferðafélagi og einn af mínum allra bestu vinum). Við héldum aftur heim með skottið á milli lappana en Langjökull má passa sig því við snúum aftur og þá þarf meira en haglél og slyddu til að bíta á okkur.
Nú er klukkan farin að kalla á mig og rúmið farið að heilla. Búinn að vera að taka til því orkan var ekki alveg búin. Vinna á morgun og ný ævintýri bíða í góðri viku.
Hver veit, kanski fer ég að henda inn einhverjum myndum til að sýna ykkur en þangað til skora ég á ykkur að skoða vefinn hennar Stebbu minnar (Hún hatar að vera kölluð stebba hehe).
http://blog.central.is/bjorg87
http://bjorg87.blog.is/
Hún á erfitt með að ákveða sig hvað hún vil nota svo hún skráir allt á tvö blog í dag. Dugnaður í henni.
Farið vel með ykkur
Helgi Þór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)