Gleðilegt nýtt ár 2007

Jólasteikin er runnin niður með jólaölinu og orðin hálfmelt eftir hálfvinnuviku og áramót. Hvíld og afslöppun hefur einkennt síðustu daga því þrátt fyrir jólastressið nær maður alltaf að pústa út og slaka á taugunum um jólin. Þetta eru búið að vera skemmtilegur tími og nú er nýtt ár komið með nýjum verkefnum og markmiðum. Þar sem ég sit hér viðbúinn og tilbúinn til að fara í fyrsta vinnudag ársins get ég ekki annað en hugsað, eins og margir aðrir samlandar mínir, hvað ég ætla að bæta sem betur má fara á nýju ári. Eftir litla sem enga umhugsun ætla ég að setja þessi vel vönduðu orð á blað ef blað má kalla.

Blogga lágmark 1x á dag um virka daga. Mæting í líkamsrækt í Laugum lágmark 3x í viku. Sund lágmark 2x í viku. Byrja að stunda golf og fá kennslu í því. Fara oftar í snóker t.d. 1x í mánuði. Horfa á James Bond safnið á einni helgi. Tvær ferðir í veiðivötn og ein ódýr laxveiði. Takmarka skyndibita við hámark 1x í viku. Smyrja nesti í vinnuna. Læra að elda indverskan mat. Ljúka MCSA náminu og taka prófin fyrir sumarið. Skrá mig í HR í tölvufræði. Gefa út ljóðabók. Klára Sudoku bókina mína. Semja sögu eða smásögur. Taka skotveiðileyfið og kaupa mér byssu. Hækka tekjur og lækka útgjöld.

Samt er þetta ekkert svo sniðugt eftirá að hyggja að setja sér svona markmið. Núna veit ég nákvæmlega hvernig árið verður og öll spennan er farin. Ætli ég verði ekki bara að bíða í 364 daga eftir 2008.


Gleðileg Jól og farsælt komandi ár !

Það er alveg ótrúlegt hvað maður endar alltaf saddur og sællegur marga daga eftir jólin. Þetta endist hjá mér yfirleitt fram á nýtt ár. Þessi jól samanstóðu af þremur matarboðum, trivial pursuite stund með góðum vinum og Flags of our fathers með vinahópnum og m.a. Henning nýjustu afurð Hollywood ;)

Ég skila jólakveðjum til ykkar allra sem lesið þetta og vona að þið hafið það sem best á nýju ári.


Nóvemberfréttir !

Hæ hó vinir og vandamenn !

Það er alltaf sama fjörið á þessum bæ og allt á fullu. Stefanía fór í aðgerð á fótinum sínum fyrir 2 vikum síðan og batinn gengur vel. Við fórum í endurkomu uppá Landspítala og allt leit vel út. Því miður fékk hún bólgur í vöðvafestur yfir öxlinni sem gerði það að verkum að hún gat ekki nýtt hækjurnar. Við björguðum okkur eins og alltaf ;) Hún fer í endurkomu eftir 5 vikur og þá verður gipsið fjarlægt.

Dale Carnegie námskeiðinu er að ljúka eftir rúma viku og þar með er enn einu 12 vikna ferlinu lokið. Frábær tími og einstaklega gaman eins og alltaf. Það er allt á fullu í skólanum og nú telja bækurnar 4 sem ég þarf að ljúka fyrir janúar. Ég stefni á að taka fyrsta prófið í desember ef allt gengur vel og þá helst til að hefja prófferlið og ljúka því sem fyrst. Ég stefni á að ljúka fyrst MCP-XP gráðunni (Microsoft Certified Professional - Windows XP). Annars gengur námið glimrandi vel og helsti vandinn er að finna tíma fyrir allan lesturinn.

Það er allt á fullu í vinnunni. Þetta er síbreytilegt umhverfi og ég hef alltaf jafn gaman að þessu. Næstu helgi verður jólahlaðborð í vinnunni og það leynir sér ekki að tilhlökkunin er komin þar sem þetta er fyrsti stóri viðburðurinn sem ég tek þátt í með stjórn Starfsmannafélagi Prentmets.

Þetta eru helstu fréttirnar. Ég skelli fleirum inn á næstunni :)

Helgi


Vöxtur og uppgangur í þessari nýju tækni

Gaman hefur verið að fylgjast með þróuninni síðustu árin á internetinu. Ég man vel eftir því þegar ég og vinur minn kynntumst internetinu fyrst. Þá voru heimasíður ekki jafn vandaðar og mátti sjá litilar hreyfimyndir víðast hvar. Þetta þykir léleg vefsíðugerð í dag en á þeim tíma var þetta bylting.

Maður átti erfitt með að átta sig á því hvernig þetta virkaði alltsaman og hvað þá frekar að átta sig á því að maður ferðaðist um heiminn á einhverjum sekúntum. Þá voru tengingarnar hægar en vefsíðurnar voru ekki með mikið gagnamagn og það að hala niður efni af vefnum var fjarri lagi.

Við vinirnir lékum okkur á irkinu sem var aðal trendið á þeim tíma. Þú varst ekki maður með mönnum nema að þú chattaðir á irkinu undir vel völdu dulnefni. Ég átti það til að spreyta mig á ensku kunnáttunni með því að spjalla við fólk víðsvegar úr heiminum. Í dag er þetta blogg ef svo má segja.

Allt í einu bættust við MP3 lög á netið, flóknari heimasíður, skólavefkerfi og ég veit ekki hvað og hvað. Áður en menn vissu var hópur fólks farinn að versla á netinu.

Þetta er framtíðin. Þetta er samtenging heimsins. Ég hlakka til að fylgjast betur með !


mbl.is Vefsetrin á netinu orðin 100 milljón talsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn aftur í nám...

Það hlaut að koma að því að maður settist aftur á skólabekk. Í morgun byrjaði ég í námi í NTV að læra MCSA netstjórnun. Þetta er nám sem á tvímælalaust eftir að efla mig í nýja starfinu og ég var heldur betur til í tuskið að takast á við það. Ég mætti í morgun jákvæður og metnaðarfullur og það fyrsta sem blasir við mér er kennslubókin. Hversu stór getur ein kennslubók verið ? Síðan segir kennarinn að það séu tvær slíkar á leiðinni í viðbót og þetta er ekki nema 12 vikna nám. Nú er bara að leggjast við lesturinn. Þegar ég hef lokið við þetta nám verð ég útskrifaður MCP-XP (Microsoft Certified Proffesional XP windows management) og einnig MCSA (Microsoft Certified System Administrator). Ég hlakka mikið til þessarar áskorunar sem þetta verður.

Það gengur vel í nýju stöðunni. Ég er ennþá að koma mér fyrir en hjólin eru heldurbetur farin að snúast og nóg af verkefnum að leysa. Ég held baráttunni áfram og bið vel að heilsa fram að næsta pistli.

Helgi 


Geymdur en ekki gleymdur...

Viti menn ég er vaknaður til lífsins. Sumartörnin búin, sumarafslöppunin búin og tími til kominn að bretta uppá ermarnar og taka til verks. Nóg er af verkefnum framundan og skemmtileg tíð að ganga í garð.

 Nýjustu fréttirnar eru að í gær hlaut ég eins konar stöðuhækkun í Prentmet. Ég er héðan í frá hættur að selja fyrir þá og hef tekið við stöðu Verkefnisstjóra markaðs og tæknisviðs. Þetta er í kjölfar þeirra verkefna sem ég hef verið að sinna síðastliðna mánuði og voru farin að taka ansi mikinn tíma frá sölunni. Nú fæ ég tækifæri að sinna þessum verkefnum af einurð og skila þeim af mér 100%. Þetta er líka töluvert nær mínu áhugasviði heldur en sölumennskan þótt ég hafi alltaf haft mjög gaman að henni. Ég hlakka til að takast á við nýju verkefnin og er þakklátur fyrir það tækifæri sem mér hefur verið veitt.

 Stefanía mín er á fullu í skólanum og stendur sig eins og hetja. Gaman verður að fylgjast með henni því ásamt MK hefur hún hug á að bæta við sig sérnámi í Snyrtiskóla og útskrifast sem snyrtifræðingur á einni önn. Það mun án efa taka á orkunni hennar en ég veit að m.v. það flug sem hún hefur verið á getur hún skapað sér hvaða tækifæri sem er og nýtt það í botn.

 Ég sat í kvöld ásamt Óla vini og horfði á úrslitaþátt Rockstar Supernova. Magni datt út í kvöld og lenti í 4. sæti í keppninni. Að fylgjast með Magna hefur án efa gert mann stoltan því hann hefur staðið sig með sóma í allri keppninni og verið einn besti fulltrúi á erlendum vettvangi sem Ísland hefur átt. Alla keppnina hefur hann verið hann sjálfur og ekki verið að skreyta sig meira en þörf er á annað en Glysrokkarinn Lucas sem vann keppnina. Lukas var ekki mitt uppáhald en ég vona innilega að hann nái árangri með hljómsveitina. Hvað Magna varðar að þá veit ég það að hann mun ekki þurfa að örvænta því hann hefur sínt sig og sannað, nú er kominn tími til að njóta afrakstursins. Hann var óhræddur í þætti uppfullum af rokkurum að sína sitt rétta andlit sem fjölskyldumaður þegar kona hans og sonur mættu og sagði orðin "First and foremost I'm a father". Þetta ásamt hnyttnum svörum sem hann gaf dómurunum í Supernova voru hlutir sem sýndu að Magni er "alvöru" og það er það sem mun koma honum áfram.

Magni.... ég er stoltur af þér !

 Jónsi, pabbi hennar Stefaníu, kíkti í heimsókn með Jónínu Freyju og Einar Óla um dagin. Það er alveg ótrúleg lífsgleði í manninum því ég man ekki það skipti sem ég hef hitt hann án þess að hann slái á létta strengi og lyfti upp stemningunni.

 Ég átti leið framhjá veitingastaðnum hjá Teddu, mömmu hennar Stefaníu, og Begga í dag og kíkti við í súpu og kaffibolla. Allt gott að frétta á þeim bæ og nýja fyrirtækið komið á fleygiferð.

Ég er kominn á fullt í Dale Carnegie aftur þrátt fyrir að hafa ætlað að hvíla mig þessa önnina. Þegar Vignir þjálfari hringdi í mig og bað mig að gerast aðstoðarmaður í þriðja skiptið gat ég einhvernvegin ekki sagt nei og glaður er ég því námskeiðið hefur aðstoðað mig mikið við að halda mér við efnið og hafa einbeitningu á markmiðunum mínum til að stefna hærra. Nú eru tíu vikur eftir og það mun án efa halda manni á tánum fram að jólum.

 Ég og Stefanía fórum til Spánar á Benidorm í sumarfríinu okkar ásamt Kela, Óla og Gerði systur hans Óla. Þetta var frábær ferð í alla staði og án efa gaman að prufa loksins vélnautið ógurlega sem ég hef heyrt sögur af í mörg ár. Mér tókst að halda mér á í 1 mín og 40 sek á rodeotækinu vígalega. Við lágum á ströndinni, kíktum í tívolí og rennibrautagarð, fórum í verslunarmiðstöð, borðuðum á góðum veitingastöðum og kíktum út á lífið. Frábær leið til að eyða 10 dögum í ágúst.

Henning vinur er loksins kominn heim úr Ameríkunni og hann stóð sig vel þar. Hann var í leiklistarnámi í New York Film Academy - Universal Studios Los Angeles location og fékk frábærar viðtökur. Hann átti einhverja möguleika á að vinna úti eftir námið en ákvað að koma heim. Það var nokkuð skrítið að sjá hann aftur eftir 9 mánuði í burtu því tíminn var fljótur að líða en hann hafði greinilega þroskast mikið og lært margt. Til hamingju Henning þú stendur þig vel.

 Sveinbjörn frændi er búinn að eignast dóttur og ég held að það sé kominn tími til að kíkja á nýju frænkuna. Barngóði drengurinn loksins farinn að unga út sínum eigin. Ég hef ekkert heyrt frá þeim en síðast þegar ég talaði við hann var hann á leið með Láru uppá Fæðingardeild.

P.s. ég er ekki að venjast því að segja fæðingardeild því ég mismæli mig alltaf og segist hafa talað við hann þegar hann fór með hana á slysó. Ég er ekki alveg viss um að slysadeildin höndli að taka á móti þeim ófrísku ofaná allt annað.

Meira held ég að sé ekki í fréttum í bili en þar til næst bið ég að heilsa !!! 


HELGAferð

Farið var í ferðalag.
ferðin yfir heiði
Beggja vegna við laugardag
var legið í Álfaskeiði 

Góð voru nokkur gleðitár
gaumur á okkar valdi
Ekki laust við legusár
að liggja svona í tjaldi 

Í sæluvímu sungum lag
seint á fyrsta kveldi
Skálað fram á sunnudag
sveitt hjá varðareldi 

Kjet var eldað og étið allt
eðalmatur og æti
Og aftur þegar þótti kalt
það ennþá vakti kæti 

Pakkað í bíla og haldið heim
tjöldin niður rifin
Ég átti góða stund með þeim
en nú eru eftir þrifin

Helgi Þór


Veðrið á Íslandi er ekki í mínu liði !

Það er alveg ótrúlegt hvað þetta blessaða Íslenska veður getur strítt mér mikið. Nú er mál með vexti að ég og Stefanía ætlum að skella okkur í útilegu um helgina með gamla vinahópnum mínum. Það er alveg ótrúlegt hvað það er hægt að fara svona ferð ódýrt. Við erum búin að leggja niður sparnaðaráætlun og förum tvö saman alla helgina fyrir bara 10.000 kr. og það er ekki slæmt.

Ferðinni verður heitið í Þjórsárdalinn þar sem við tjöldum. Ferðalangar að þessu sinni erum við skötuhjúin ásamt Kela, Óla, Stefaníu Eir & Ingó, Maríu, Önnu Siggu, Fjólu og einni í viðbót sem ég man ekki alveg hvað heitir (biðst afsökunar á því). Ég græjaði toppafslátt af kjöti og pulsum handa fólkinu og meðlætið verður keypt í dag sem þýðir að veislan á eftir að verða yndisleg.

Eins og þeir sem þekkja mig vita að þá verða veiðistengurnar að sjálfsögðu með í för. Hver veit nema við strákarnir laumum okkur í Fellsendavatnið norðan af Hrauneyjum á laugardeginum. Við bíðum bara eftir því að stelpurnar detti í kjaftastund því þá taka þær ekkert eftir því að við týnumst í 4-5 tíma. Ef vel veiðist verður grillaður silungur í forrétt og þeir sem hafna því missa af miklu.

Það verður mikið stuð á okkur en ég efast um að ættingjar og vinir þurfi að lesa um okkur í morgunblaðinu um helgina. En verkefnisskiptingin er góð. Stefanía Björg hefur mestar áhyggjur af því að gleyma að pakka einhverju, Stefanía Eir hefur mestar áhyggjur að versla ekki allt inn. Ingó hefur mestar áhyggjur af því hvernig raðast í bílana og María hefur mestar áhyggjur af því hver vilji hafa sig með í bíl. Ég hef mestar áhyggjur af því að kæla kjötið nóg fyrir ferðina en Óli og Keli hafa mestar áhyggjur af því að kæla bjórinn nóg. Restin af stelpunum hefur áhyggjur af því að það verði ekki nóg af einhleypum strákum á svæðinu ;)

Farið vel með ykkur um helgina og þið fáið nýjustu fréttir og slúður eftir helgina þegar búið verður að ritskoða. Hver veit nema maður skelli inn mynd eða tveimur ;)

Kv. Helgi


Eins manns dauði er annars brauð !

Ef þetta eru í raun sannleikskorn væri ég ánægður að fá að vita af hverju allur heimurinn er ekki búinn að fá að éta ! 

Ég man ennþá eftir því þegar ég var nógu ungur til að hafa engann áhuga á sjónvarpsefni sem ekki innihélt skrautlegar teiknimyndafígúrur. Fréttir voru leiðinlegt sjónvarpsefni sem pabbi og mamma horfðu á og trufluðu alvarlega minn tíma til að glápa á imbakassann. Í dag er ég fréttafíkill. Ég horfi á sjónvarpsfréttir, les dagblöðin og kíki reglulega á þessa fyrirmyndar fréttavefi sem okkur eru í boði á netinu. En af hverju les ég ekki um neitt annað en stríð og volæði í heiminum. Ég er ekki að segja að fréttamenn eigi að takmarka upplýsingaflæðið af stríðshrjáðum svæðum heldur velti ég fyrir mér af hverju öll þessi illska fyrirfinnst í heiminum.
 

Hver er ástæðan fyrir þessu öllu. Er þetta misskilningur á milli menningarheima eða þrjóska við að viðurkenna hætti annara. Er þetta kanski öfund og græðgi sem stjórnar mönnum. Ég man ennþá eftir gullnum kornum sem mér voru kennd í grunnskóla af fleiri en einum kennara, ekki treysta öllu sem fjölmiðlar segja. Íslenskir fjölmiðlar sækja sínar fréttir af erlendum vefjum og þá nánast eingöngu úr fjölmiðlum vesturveldanna s.s. Evrópu og Ameríku. Þetta er menning sem við samsvörum okkur með og erum sammála. Er eitthvað annað sjónarmið sem við erum að missa af ? Getum við skilið það sjónarmið ?
 

Ég ætla ekki að setja mig á háan stall og segjast skilja allt sem gerist í þessum blessaða heimi. Ég legg mitt traust í þá stjórnmálamenn sem ég kýs og ég vonast til að ég geti treyst erlendum stjórnvöldum jafn vel. Ég er mjög þakklátur fyrir það að búa á landi þar sem hnífsstungur og innbrot eru með alvarlegari málum sem koma uppá og eru meira að segja fréttnæmt efni.
 

Af og til heyri ég háværar raddir sem kalla á heimsfrið. Það mun aldrei ríkja heimsfriður í hinum mennska heimi. Ég skal glaður éta þessi orð ofan í mig ef einhvertíman annað kemur í ljós. En ég er þeirrar trúar að þetta séum bara við. Mannfólkið er svo hverfullt. Við erum mismunandi eins og við erum mörg og mannlegt eðli endurspeglast í því slæma jafnt sem því góða. Öfund og græðgi eru hluti af okkar háttum og menningarheimum. Það eina sem ég bið um er að illskan nái ekki það sterkri rótfestu að hún taki yfir og gjöreyði okkur öllum.
 Kv.Helgi Þór

Skiptar skoðanir með sýningarrétt á HM 2006 !

Nú heyrast háværar raddir sem deila um sýningar á leikjum HM 2006. 365 fjölmiðlar hafa keypt sýningarréttinn og munu koma til með að sýna leikina á Sýn. Fjölmiðlar velta málefninu fyrir sér og kynna fyrir okkur sem ekki höfðum fylgst nógu vel með hvernig verð hafa hækkað gríðarlega á Sýn nema um samning til lengri tíma sé að ræða !

Ég veit ekki hvort það sé ég sem er svona einfaldur eða hvort þetta geti verið miklu auðveldara og skilað sér í samkeppni til neytandans !

Ísland hefur breyst. Íslendingar eru orðin upplýsingatækniþjóð og mjög auðvelt er að afla efnis til fróðleiks eða skemmtunar hér á landi. Það er varla sá landsmaður sem ekki hefur aðgang að interneti og eru það fáir að þeir eru meira að segja færri en stuðningsmenn framsóknarflokksins í síðustu kosningum. Þegar ég starfaði hjá Halló FF símafyrirtæki fyrir einhverjum árum síðan stundaði ég sölumennsku og fékk góð viðbrögð því hugmyndin um eitthvað annað símafyrirtæki og internet hraðara en 56Kb/S ! í dag þykir sjálfsagt að fá samkeppni í fjarskiptum og að ADSL sé ekki hægara en 1Mb/s (1024 Kb/S)

Ég ber fulla virðingu fyrir því að Sýn nýtir tækifærið til fullnustu þar sem þeir hafa greitt fyrir sýningarréttinn. Mér þykir það ekki réttlátt hjá þeim að hækka verðið svo mikið eða þá að knýja viðskiptavini til skuldbindingar en svona þarf oft að vinna til að berjast á hratt stækkandi markaði með mikilli samkeppni. 365 fjölmiðlar hafa átt á brattann að sækja en hafa samt staðið alltaf fyrir sínu og rutt til rúms á sjónvarpsmarkaði hérlendis.

Það sem mér þykir stærsta málið til athugunar í þessum efnum er einfaldlega hvort það sé ekki rangt að selja einkaleyfi á sýningarrétt hérlendis. Hver er það sem leyfir það. Samkeppnisstofnun ætti að ráðast á rótina áður en þeir pota í spilendur leikkerfisins. Ísland er svona en þarf ekki að vera svona. Olíufélögin póstuðu sín á milli verðlagningu. Ríkið hirðir stærstan hlutan af eldsneytisverðinu. Það er rukkað fyrir gagnaniðurhal á netinu hérlendis. Internet er aðgengilegt en rándýrt fyrir heimilin hérlendis. Sjónvarpsmiðlar eru fáir en öflugir og bjóða uppá mikið úrval en þeir eru mjög dýrir fyrir heimilin og mörg heimili hafa einfaldlega ekki efni á meiru en RÚV. Hinsvegar hafa snillingar rutt veginn fyrir Skjá1 og Sirkus sem hafa afþreyingu ókeypis og þéna á auglýsingatekjum.

Af hverju er ekki afnuminn þessi endalausi réttur sem er seldur af þeim sem eiga peningana fyrir offjár og keyptur af þeim sterku sem eiga einnig of mikið af peningum. Af hverju er ekki opið fleiri en einum að sýna svona kostulegan viðburð og af hverju er þetta kerfi þar sem fyrirtæki er knúið til að leggja ótrúlega stórar upphæðir í að stimpla sig sem vonda kallinn á markaðinum til að þéna á móti sýningarréttinum. Er ekki peningunum betur varið í heilbrigða samkeppni þar sem allir hafa aðgang og auglýsa sér til hagsmuna og reyna þá að lokka kúnnan í önnur möguleg viðskipti.

Sýningarréttur er skiljanlegur því allt kostar en ekki einkaleyfi á honum. Höfum opna samkeppni á markaðinum og stuðlum að fjölbreyttari valmöguleikum án þess að þurfa að taka yfirdrátt fyrir þeim.

X-Ísland í HM 2010.

 

Farið vel með ykkur

Helgi Þór


mbl.is Margar kvartanir hafa borist Neytendasamtökunum vegna HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband