15.2.2007 | 00:07
Svarið við gátunni um tilgang lífsins !
Ég sat og hugsaði í morgun í kaffitímanum mínum. Hver er tilgangur lífsins. Líkt og áður rann ég með sjálfum mér í heimspekilegar pælingar sem erfitt er að finna lausn á. Í þetta skiptið fann ég svarið. Tilgangur lífsins er að leggja á sig og njóta árangursins sama í hvaða formi er rætt um. Maður vinnur fyrir launum til að geta notað þau. Maður kemur vel fram við aðra til að aðrir komi vel fram við mann sjálfan. Maður æfir sig til að geta sigrað. Einfaldara gæti það ekki verið...
En eins og áður var einfaldleikinn of einfaldur og ég fór að efast mitt eigið svar. Hvað með þá sem búa í miðausturlöndum og afríku. Hvað með þá sem eiga ekki bót fyrir boruna á sér en vinna mikið meira heldur en við öll í verri aðstæðum og fyrir langtum minni laun til þess eins að geta rétt séð fyrir sér og sínum. Ekki getur það verið að sá hinn sami sitji og segi að tilgangur lífsins sé að leggja á sig og njóta árangursins því sama hversu mikið sá hinn sami leggur á sig að þá er það alltaf rétt nóg fyrir að dansa á línunni og þá telst hann heppinn. Hann veit samt alveg að á sama tíma og hans börn svelta sitja önnur börn annarstaðar í heiminum vælandi í sófanum af því þau fá ekki sér sjónvarp inní herbergið sitt af því það er nýbúið að fjárfesta í 3ja sæta Lazyboy sófa fyrir framan 50" plasmasjónvarpið. Ég vil nú ekki hljóma eins og snillingurinn hann Andri Snær í draumalandinu en þetta er bara satt. Hvernig getur sá hinn sami séð þennan tilgang og hvernig getur þetta þá verið tilgangur lífsins.
Heilinn minn var við það að krota hörð skilaboð á verkfallsspjöld og leggja niður vinnu þegar ég náði þessum tímapunkti en samt sætti hann sig við að sum dæmi í þessari jöfnu sem ég hafði lagt upp voru óleyst.
ÉG FANN SVARIÐ !!! Líkt og eldingu væri lostið í hausinn á mér varð allt svo einfallt og skýrt aftur. Þetta er tilgangur lífsins míns. Til hvers að pæla í tilgangi lífs annara þar sem þeir eru að lifa allt öðru lífi heldur en ég með allt aðrar áherslur. Nágranni minn gæti séð stóran tilgang í að kaupa jeppa á meðan ég vil ferðast til útlanda. Svo lengi sem maður getur borið kærleika til náungans er óþarfi að bera sig saman við hann. Minn tilgangur í mínu lífi er að leggja á mig og njóta árangursins. Einfaldara gæti það ekki verið og ég kann vel við það !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2007 | 23:36
Botnið versið !!!
Þegar báran stendur stök
og hafið togar til baka
Hverfa burtu heimsins rök
og úr verður fróðleg staka
Borinn er á herðum tveim
allur heimsins þungi
Ég hefði viljað segja þeim
að ég er ennþá ungi
Ég læri hratt og læri vel
herði lífsins róður
Keppi áfram uns ég tel
að ég sé orðinn góður
Bíðið vinir það skýrist senn
þið munuð allir brosa
Unginn litli mun toppa menn
þegar snjóinn tekur að losa
HÞG 7.feb.07
Nú þegar lífið gerir meiri kröfur til mín en nokkurtíman áður leggjast áhyggjur og kvíði ofaná. Ég lýsi þessum tilfinningum stríð á hendur og keppi áfram sterkari en nokkru sinni fyrr... Ég mun sigra !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2007 | 00:38
Femínistaþvæla... Hættið nú að væla !!!
Ég hef nú nóg annað við tímann minn að gera en að lesa greinar líkt og ég las núna fyrir stundu síðan. Þarna sat ég í mestu makindum, við það að vinna taflið við páfann, þegar ég rek augun í þetta leiðindarandlit sem einhverra hluta vegna er farið að rata á síður Fréttablaðsins. "Femínistar ræða að setja viðskiptabönn" er fyrirsögn greinar sem fékk grátbrosleg viðbrögð til að birtast á annars þungbúnu andliti mínu. " Við höfum rætt frá upphafi að neytendavaldið sé vald sem konur hafa og það sé þess virði að athuga hvernig hægt sé að nota það betur" eru orð sem höfð eru eftir þessari ímynd alls sem slæmt er við nútímaþjóðfélagið. Það eru konur á við þessa sem fá hárin til að rísa á höfði mínu. Ég tel mig vera jafnréttismann en þessi kona er jafnbiluð og Ku Klux Klan meðlimur sem brennir krossa í nafni réttlætis. Hún hvetur konur til að sniðganga fyrirtæki sem ekki hafa jafna tölu á kynjum stjórnenda þess. Hvað er málið ??? Er þetta ekki að breytast nógu hratt fyrir þig elskan... eigum við að sneiða af bjúgað og vaska upp fyrir þig á meðan þú klórar þér í þarmaskegginu og horfir á boltann ? Að mínu mati eru konur eins og þessi bitrar yfir því að hafa einhvertíman á ævinni þurft að gera handtak á heimilinu. Þær fengu nóg af uppvaskinu án þess að hafa snert það heldur aðeins horft á mömmur sínar. Vissulega var á árum áður ójafnrétti og konur lutu lægra haldi í mörgum tilvikum en þetta er að lagast. Mér þykir það vanvirðing hvernig þessar konur, sem berjast í femínistafélagsmálum í dag, virðast hafa gleymt öllu því sem skipti í máli í upphafi. Berjast fyrir jöfnum launum og jöfnum tækifærum. Hvað er málið. Eiga fyrirtæki að hafna starfsmönnum og stjórnendum ef það fellur ekki að reiknilíkani femínistafélagsins.
Ég skora á alla karlmenn að sniðganga fyrirtæki sem hafa meira en 50% stjórnenda kvenkyns til að jafna út áskoranir femínistakvennanna og ná þannig fram jafnrétti !!! Samansafnaður sparnaður eftir þessar aðgerðir getur runnið í það góða málefni að gefa öllum meðlimum femínistafélagsins nýjasta diskinn frá Baggalút til þess eins að rannsaka viðbrögð og hugsanlega þörf á áfallahjálp.
Það sem stakk mig mest í þessari grein er ítrekun hennar á málefni sem átti sér stað fyrir jól þegar hún sniðgekk vörur Egils eftir "klámfengna auglýsingu". Hverjum er ekki sama hvort hún sniðgengur þessar vörur eða ekki og Katrín... Brjóst og bossar hætta ekki að vera til þótt þú drekkir ekki malt og appelsín !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 01:18
ÉG ER ALVEG BRJÁLAÐUR NÚNA !!!
Gabríel erkiengill og Djöfullinn sjálfur voru að tala saman um handboltaleik sem átti að halda milli himnaríkis og helvítis. Gabríel, nokkuð vongóður um öruggan sigur, sagðist ekki hafa áhyggjur af þessum bardaga og varaði Djöfulinn við komandi átökum. "Við eigum öruggan sigur Satan þar sem að í himnaríki eru allir bestu leikmennirnir svo við byggjum upp bestu fáanlegu vörn og sókn sem hægt væri að hugsa sér" sagði Gabríel. "Þú ert sigurviss til einskis Gabbi minn" sagði Satan. "Okkur er alveg sama hvaða leikmenn þið eigið" sagði hann og hló. "Vissiru ekki að allir dómararnir eru í helvíti !!!"
Þessi brandari er það sem mér flaug í hug þegar ég horfði á þann dómararaskandal sem leikur Íslands gegn Pólverjum var í HM keppninni í kvöld. Þetta var svakalegt að horfa uppá. Okkar menn eru reknir útaf í 2 mínútur fyrir að hnerra á Pólverjana á meðan þeir komast upp með að slasa þrjá af okkar leikmönnum. Ég veit ekki hvort ég hafi verið að ímynda mér en ég sá einn leikmann nefbrotinn, Logi fékk öflugt högg á öxlina og Guðjón Valur fékk spark í lærið og ruðning dæmdan á sig í þokkabót. Ef ég hefði fengið að sjá a.m.k. einn slasaðann Pólverja hefði ég orðið rólegri.
Nei maður má ekki segja svona ! Þeir spiluðu harðann bolta en þeir eru ágætir greyin þessir Pólverjar. En dómararnir eru horslummur og tittlitgaskítur sem lyktar eins og flórinn í fjósinu hjá Belju með salmonellusýkingu. Þeir mega hlaupa á vegg og detta af kletti fyrir mér. Hvar er réttlætið. Fyrir 1000 árum síðan hefði Íslenskur víkingur aldrei látið koma svona fram við sig. Hann væri búinn að höggva þá og svívirða á meðan hann stæli konunum þeirra og ræna þorpið.
Nú er reiðin búin og þetta mun ábyggilega virka fínt sem lesefni fyrir sálfræðinema háskólans um einkenni 23 ára karlveru með snert af æsingi eftir ósanngjarnan íþróttaviðburð sem snýst um karllæga snertingu og harkaleg faðmlög.
En strákarnir okkar stóðu sig í stykkinu. Þeir unnu þennan leik og því miður voru dómararnir ekki sammála og skv. reglum alþjóða handknattleiks félagssamtakahópaeitthvað er það víst lykilatriði að þeir gefi blessun sína. En þeir halda bara áfram og taka Slóveníu og Þýskaland um helgina.
Ég spái því að Íslendingar vinni þessa leiki þar sem Slóvenía eru bara ofvaxin börn í brennó og þjóðverjar eru að sjálfsögðu ekki nógu góðir í handbolta (þessvegna flytja þeir inn Íslendingar í magni). Hrokinn alveg að drepa mig þar sem augnlokin taka að síga.
Ég held nú inn í draumalandið brosandi þar sem ég veit að mín bíða draumar um örlög dómaranna nema í þetta sinn verð ég í dómarasætinu. GÓÐA nótt ;)
PS: Áfram Ísland.... látum Alfreð bara hræða þá !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2007 | 14:09
Við erum stolt af strákunum
Það var feiknarlega skemmtilegt að fylgjast með drengjunum okkar í Þýskalandi í gær. Þeir stóðu sig eins og hetjur og spiluðu skemmtilegasta handboltaleik sem ég man eftir að hafa séð. Ég sat með pabba að horfa á leikinn og ég var farinn að stoppa hann af þar sem hann nagaði neglur, sat stífur í baki og gargaði og vældi í hverri sókninni af fætur annari.
Þetta tengdi okkur pabba mjög mikið því ég sá að hann er bara mannlegur og getur ábyggilega grátið eins og við hin en sem betur fer kom ekki til þess þar sem við unnum !!!
Hitt er með myndbandið... spurning hvort að það sé ekki framleitt í Stúdíó Byrgið og að Alfreð hafi sagt við strákana "Svona verðið þið leiknir ef þið tapið leiknum"... Þetta hefur bara verið handjárna og svipufóbía sem keyrði þá áfram !!!
En að öllu gríni slepptu að þá sendi ég mínar bestu baráttukveðjur út og segi STANDIÐ YKKUR STRÁKAR ... ÉG ER STOLTUR AF YKKUR !!!
HM: Myndbandi Alfreðs og Ólafi hrósað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.1.2007 | 00:44
Er ekki nóg komið !
Ég sé að núverandi og þáverandi ríkis og borgarstjórnir ætla ekkert að aðhafast í að laga það sem mestu máli skiptir. Ég hef fengið nóg af því að hlusta á nöldurskjóður og hef ákveðið að gera eitthvað í málunum.
Kosningarloforð !
1. Afnema tekjuskatt og útlánavexti bankana ásamt hækkun á innlánsvöxtum
2. Hækka lágmarkslaun og persónuafslátt um 100% og lögleiða stóra starfslokasamninga
3. Fækka mislægum gatnamótum og lækka bensínkostnað um 50%
4. Fjarlægja Kárahnjúkavirkjun og álverin ásamt lögbanni á stóriðju
5. Tvöfalda þjóðveginn og beina umferð frá úthverfum
6. Fækka umferðarslysum og tvöfalda mannsafla í björgunar og lögreglusveitum
7. Sjá til þess að allir starfsmenn í heilbrigðiskerfinu tali íslensku og séu tilbúnir til að vinna fyrir lægri laun en aðrir íslendingar.
8. Banna reykingar innanhús allstaðar
9. Banna reykingar útivið
10. Hækka bílprófsaldur og sjálfræðisaldur
11. Lækka vexti á íbúðarlánum
12. Byggja upp geðspítala með nóg pláss fyrir alla sem styðja kosningarloforð 1-11...
Hættið að röfla og vinnið vinnuna ykkar sátt við það að hlutirnir eru eins og þeir eru. Ef það er ekki nógu gott skuluð þið gera eithvað í málunum og bjóða ykkur fram á opinberum starfsvettvangi, félagsstörfum og forvarnarstörfum í stað þess að sitja í kaffipásum og á kaffihúsum röflandi um hvað við höfum það slæmt. Það geta ábyggilega 90% íslendinga sagst eiga mat á borðum á meðan hin 10% borða í sófanum.
Ef þú hefur eitthvað út á þessa losun útrásar eftir langann vinnudag að segja getur þú lagt inn kvörtun í síma 4825992 !!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.1.2007 | 10:49
Stríðsrekstur í 8 ár.
Forseti Bandaríkjanna er að öllum líkindum eitt af stærstu ádeiluefnum Vestræns þjóðfélags. Ég man þá tíð þegar Bandaríkin voru rólegri og stærsta vandamálið var forsetabletturinn í fötunum hennar Monicu Lewinsky. Þá voru Demokratar við stjórnina. Í dag er Bush æðstistrumpur og hann hefur ekki verið í rónni nema að hann sé að miða byssu á araba. Nú eru háværar raddir þegar hann heldur áfram því sem hann byrjaði en fólk virðist gleyma að ekki kvörtuðu margir þegar Al Qaeda lýsti yfir ábyrgð á 9-11 áraásunum á WTC. Ekki kvörtuðu margir þegar Saddam Hussain bannaði kjarnorkuvopnaleit í landinu sínu og leyfði ekki fyrr en sameinuðu þjóðirnar voru komnar með mikla pressu á hann.
Það sýnir sig bara í fréttum hvað fólk á þessum svæðum er óútreiknanlegt og hvað það berst fram í fingurgóma. Ég man vel eftir bíómyndum og sögum þar sem eitthvað var til sem hét yfirlýsing um stríð. Þá var ekki ráðist fyrst á þúsundir óbreyttra borgara og síðan hlaupið í felur í hellum. Brandarar eru sagðir hingað og þangað um heiminn um Ósóma Bin Laden og hvernig hann gangi um í handklæðum með geitur sem vini... Hlæið bara... öflugasti her ríkustu þjóðar í heimi ásamt leyniþjónustum margra landa hafa leitað hans í 6 ár án þess að finna hann. Hann og hellisbúavinir hans sitja ábyggilega með einn ískaldan og hlæja að vitleysunni.
Ég vona að málin verði leyst þannig að á komist friður. En ég stend við þau orð mín fyrir 6 árum síðan að ég styð stjórn BNA til að leysa þetta mál og ef það kostar stríð að þá kostar það stríð. Ég vona bara innilega að sjónarmið þessara manna hafi ekki verið smituð af græðgi og pólitík eins og svo margar ásakanir hafa hljóðað um.
Nýjar áherslur Bush vekja litla hrifningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2007 | 18:19
Tækniframfarir á 100Km/klst hraða
Það er alveg ótrúlega gaman að fylgjast með snillingum alþjóðasamfélagsins koma með hverja nýsköpunina á fætur annari. Ég held að hann afi minn muni snúa sér í gröfinni þegar hann uppgötvar að sonarsonurinn sé farinn að tala við bílinn í þeim tilgangi að fá réttu lögin spiluð og til að hringja í rétta fólkið. Á hans gullárum voru engir farsímar og þá þótti lúxus að hafa talstöð á milli bíla. Ekkert GSM, MP3, CD, DVD rugl. Mestalagi FÍB.
Ég bíð spenntur eftir þessari frétt.
Húsmæður gleðjast !
Nú hafa sérfræðingar í bandaríkjunum þróað leið fyrir stressað fólk sem vinnur alltof mikið og hefur engan tíma til að elda mat fyrir fjölskylduna. Í síðustu viku á sýningunni Overweight interest expo í Fat Texas USA var kynntur til sögunnar Autofrier 5000 djúpsteikingarpotturinn fyrir bíla sem bílaframleiðandinn Ford mun taka í notkun á næsta ári. Auglýsingarherferðinni steiktu það á leiðinni heim hefur nú þegar verið sett í gang í Bandaríkjunum. Potturinn er sagður hentugur til að steikja allar gerðir af kjöti, franskar og langflestar tegundir grænmetis eins og t.d. blómkál. Þetta er enn ein rósin í hnappagat Ford sem hefur nú þegar sett innbygða örbylgjuofna og samlokugrill í bílinn sinni Ford Kitchenaid.
Ath. Þessi texti er tilbúningur og hefur ekkert með raunveruleikann eða Ford að gera (bara svona til að vera viss;-) ...)
En ég vil fá að bæta við hrósi til Brimborg fyrir að halda úti bloggsíðu, sjá www.brimborg.blog.is því það eru ekki mörg íslensk fyrirtæki sem þora að sýna persónulega ímynd með þessum hætti.
Tveir stórir þumlar upp fyrir Brimborg og ég vona að fleiri feti í sömu spor.
Microsoft-hugbúnaður fyrir Ford-bíla kynntur til leiks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2007 | 15:05
Leiðinlegt en grunur hafði læðst að mér !
Ég man eftir því þegar ég sat með Stefaníu eitt kvöldið og horfði á Rockstar eins og alltaf að konan hans Magna kom í heimsókn. Ég sagði þá að mig grunaði að þetta skildi ekki endast lengi hjá þeim að þættinum loknum. Langt frá því að þetta sé eitthvað sem ég óskaði honum enda var einstaklega skemmtilegur hjónasvipur með þeim og frábært að sjá kærleikann sem hann hafði fyrir syni sínum, en eitthvað sagði mér að þessi breyting mundi gera Magna að öðrum manni en hann var fyrir og jafnvel skapa honum ný tækifæri. Ég bara efaðist um að þær breytingar hentuðu fjölskyldulífinu vel.
Ég óska þeim báðum velfarnaðar í lífinu og vona innilega að þau nái að leysa þetta á þann máta að öll þrjú hljóti góðs af.
Magni mætir ekki í Molann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.1.2007 | 10:03
Kaupþing er vinur í raun og kyntákn Íslands
Mér hefur fundist það furðulegt að fylgjast með fréttum og bloggheimum í byrjun árs. Það er svo undarlegt hvað við getum verið miklir smáborgarar því það þarf ekki nema eina auglýsingu frá einum banka til að allir taki eftir og svo fara spekúlantar að pæla í raunverulegri þörf hennar. Ég geri nú passlega ráð fyrir því að viðskiptavinir Kaupþing vilji ganga að því vísu að bankinn standi vel að vígi fjárhagslega. Bankinn laðar að sér viðskiptavini með auglýsingaherferðum og í Kaupþings tilviki hafa verið einstaklega skemmtilegar og frumlegar auglýsingar.
En þetta er ekki bara spurning um að vera með fyndna og frumlega auglýsingu. Fyrir mér er þetta ekkert nema tákn um styrk að banki á borð við Kaupþing geti fengið í lið með sér margrómaða kvikmyndastjörnu á borð við John Cleese. Kaupþing er fyrirtæki sem gerir mig stoltan Íslending og mér er alveg nákvæmlega sama hvað þeirra kynningar kosta og hvað sá peningur gæti gert annað því þetta er nú einu sinni hluti af heildarpakkanum að vera í bankarekstri.
En ég verð nú að bæta við hversu frumlegt það hefði verið ef annað hvort David Schwimmer eða Pamela Anderson hefðu látið sjá sig í auglýsingunni að þá hefði annaðhvort verið málað vinaandlit á Kaupþing eða bara einfaldlega bankinn gerður að kynbombu með Double D.
Auðvelt að leikstýra John Cleese | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)