1.10.2007 | 00:23
Lög eru til þess að virða þau !!!
Í fjörugu næturlífi helgarinnar villtist ég niður í miðbæ Reykjavíkur þar sem undirheimar ráða völdum á aðfaranóttum laugardags og sunnudags. Sauðsvartur almúginn þyrptist út á götu og áfengi rann ljúflega um bæinn líkt og lækurinn væri ennþá í lækjargötunni. Þó mátti greina ró og spekt í annars geðveikum skrílnum þar sem laganna verðir gengu uppáklæddir um götur bæjarins tilbúnir að takast á við lögbrjóta og óspekktamenn sem hefur fjölgað gríðarlega með hertum reglum.
Illskan blossaði upp í mér og ég var að fram kominn að brjóta lög er ég gekk um dimmar götur bæjarins og villtist inn í hvert dimmt húsasundið á fætur öðru. Ég gat ekki alveg greint hvaða illska þetta var sem knúði mig eindregið til að fremja lögbrot en góðmennskan og löghlýðnin í mér áttu í mestu vandræðum með að berjast við þessa hvöt. Ég átti erfitt með að túlka þessa hvöt en komst að lokum að niðurstöðu með að kalla þetta "Ég þarf rosalega að pissa" hvötina. Um stund skildi ég hugarástand fíkilsins þar sem lífið byggist uppá freistingum. Hver einasti veggur sem ég gekk framhjá og hvert einasta húsasund var freisting í mínum augum og með "Ég þarf rosalega að pissa" hvötina mína virtist rosalega freistandi að stökkva í niðdimmt húsasund, láta undan "fíkninni" og hefja "neysluna" á meðan ég mundi vonast eftir því að laganna verðir mundu ekki standa mig að verki við lögbrotið. Ég rifjaði upp gamla og góða daga þegar frelsið og stjórnleysið réði ríkjum og hæfileikar mínir á þessu sviði gerðu mér kleift að skrifa nafnið mitt í hvítann snjó á dimmu vetrarkveldi.
Þreyttur og þjakaður náði ég áfangastað með þvagblöðruna fulla og við það að gefast upp. Ég gekk inn um dyrnar á Celtic cross sem hefur reynst mér líkt og annað heimili um dimmar nætur helganna. Þegar inn var komið tók á móti mér ilmur sem ég hef vanist á næturlífinu frá því í sumar. Ilmurinn er líkt og blanda af svita og ælu með keim af alcohol og ódýrum ilmvötnum. Ég barði af mér sauðsvartann almúgann er ég ruddi mér leið í gegnum ómennskuna sem á sér stað á pöbbum bæjarins og álpaðist niður í dimman og drungalegan kjallarann þar sem dansinn dunar og klósettinn eiga sér samastað í upplýstu horni. Ég gekk inn og kastaði af mér vatni sáttur með sjálfan mig þar sem ég hafði horfst í augun við fíknina og sigrað hana. Ég hafði virt lögin og laganna verðir hafa einum færri Íslending að hafa áhyggjur af. Ég náði markmiðinu og hélt aftur sáttur út í ómennskuna og villta næturstemmninguna. Tómur á tanknum gekk ég grunlaus á barinn og pantaði mér annan gylltan af krananum þrátt fyrir að ég vissi innst inni að með því héldi ég vítahringnum gangandi og mundi aftur þurfa að horfast í augu við "Ég þarf að pissa" hvötina sem svo sterklega heltekur mig margar aðfaranætur laugardags og sunnudags !!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.