Labbitúr til fortíðar !!!

Áðan tók ég ákvörðun um að kíkja í heimsókn til mömmu og pabba. Ég ákvað líka að fara fótgangandi í þetta skiptið þar sem ég er orðinn svo rosalega duglegur og á fullu í megrun. Það er nú samt ekki  eins og stór sigur hafi verið unnin þar sem við búum öll í grafarvoginum svo ekki var um nema 15-20 mínútna labb að ræða.

Er ég nálgaðist foldahverfið nálgaðist ég heimaslóðir. Ég gekk uppí Fannafoldina og sá þar allt í einu göngustíg sem lá inn í miðjuna á hverfinu. Þessi göngustígur fangaði augað mitt eitt augnablik og það var eins og hann kallaði á mig "Manstu eftir mér ???". Forvitnin rak mig áfram og ekki af því ég hafði ekki séð hann áður heldur af því ég hafði ekki séð hann í langan langan tíma og hafði gleymt tilvist hans á þessari jörð. Þarna lék ég mér sem barn. Þarna var holtagrjót í hæðum þar sem ég lék mér í 5 ára gamall og svo aftur 7 ára þegar ég flutti í Grafarvoginn í annað sinn. Þarna var leikskólinn sem ég var ekki á en lék mér alltaf við.

Þegar ég gekk lengra nálgaðist ég íbúðir og hús sem vinir mínir og vinkonur bjuggu í þegar ég var lítill. Ég sá blokkirnar þar sem sætu stelpurnar bjuggu sem ég var skotinn í og rólóvöllinn þar sem strákarnir spiluðu fótboltann. Ég horfði löngunaraugum á rólurnar og óskaði þess að ég gæti rólað mér þó það væri ekki nema eitt skipti í viðbót... En hvað mundi fólk segja... Þvílíkt og annað eins... Heilsíða í DV þar sem BARNAPERRI er fyrirsögnin "Tælir börnin á rólóvellinum"... Sama hvað maður segði hefði maður enga afsökun fyrir að vera svona gamall að róla sér... Eða hvað ?

Hugurinn stoppar hér og þar og skoðar en tveir jafnfljótir fætur bera mig áfram og draga hugann á eftir sér. Ég geng framhjá rólóvellinum og inn eftir göngustíg á milli garða og ég velti fyrir mér allir þessir fallegu og snyrtilegu garðar sem fólk hefur sett sinn metnað í. Þvílík synd að fólk missi af þessari dýrð. Enginn getur notið þessa því ef við áttum okkur á því að þá er ekki hægt að sjá fallegan garð þegar þú þýtur um á 30-50km hraða í sjálfrennireið af Toyotu gerð. Þvílík synd. Labbitúrinn hjá meðaljóninum miðast við 2 mínútna labb út í bílinn.

Alltí einu sé ég glitta í húsið hjá mömmu og pabba. Ég er að verða kominn heim. Það er nánast eins og ég heyri í mömmu útí dyragættinni að kalla á mig HELGI....................... MATUR........... Vá hvað þetta er góð tilfinning. Ég er að verða lítill strákur aftur.

Köld vindkviða blæs beint framaní andlitið á mér og ég hugsa. Ansi er orðið napurt og fjölmiðlamennirnir vilja meina að þetta haldi áfram. Ætli nýja ríkisstjórnin geti ekki kippt þessu í lag... hehe....

OG ÞÁ BÚMMMM..... Þetta var fyrsta fullorðins hugsunin sem ég hafði fengið frá því litli sæti göngustígurinn tældi mig í fortíðarsýn. Ég er ekki lítill strákur lengur. Þessi tími er búinn. En ég á alltaf minningarnar og með minningarnar að vopni get ég upplifað heilan áratug af æskudraumum í einum stuttum göngutúr heim til mömmu og pabba.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband