3.10.2008 | 10:44
Tívolíferð Efnahagslífsins !!!
Ja nú er það svart. Efnahagslífið okkar Íslendinga skellti sér í tívolí á meðan við almúgamenn og konur vinnum eins og hestar að borga aðgangseyrinn fyrir það. Gengið er í miðjum rússíbananum og krónan er í fallturninum á meðan embættismenn og fjármálaspekúlantar leika sér í klessubílunum. Fjölmiðlar fylgjast náið með málum og keppast um að birta fréttir um hætturnar sem leynast í tívolíinu.
ÉG TEK EKKI ÞÁTT Í SVARTSÝNI FJÖLMIÐLAMANNA OG ANNARA...
ÉG ER JÁKVÆÐUR OG ÞESSI KREPPA ER ÞAÐ BESTA SEM GAT KOMIÐ FYRIR MIG J
Ég hef ekki lengur efni á að reykja þannig að ég mun minnka hættuna á að fá krabbamein.
Ég þarf að spara svo skyndibiti og kók fer á hilluna og kílóin fjúka í burtu á mettíma
Ekki hef ég efni á djammi og leigubílakostnaði tvisvar í mánuði svo núna get ég kanski átt tíma með fjölskyldunni og notað þessi spil sem safna ryki inní skáp þótt að mér þyki þau skemmtileg.
Ekki er mikla yfirvinnu að fá þessa dagana svo ég hef loksins fengið tíma til að skrifa ljóðabókina sem ég hef haft í huga í langan tíma.
Matarverð er búið að snarhækka þannig að ég reyni jafnvel oftar að sinna tómstundargamaninu og skreppa til veiða og næla í steikur á matarborðið sem ég get fyllt frystirinn af.
Hver veit nema að ég þurfi að minnka við mig húsnæðið og þá gefst færi á að taka til í öllu þessu drasli sem ég hef sankað að mér og senda það í SORPU í eitt skipti fyrir öll.
Nú fæ ég loksins tækifæri til að sitja grannur og heill heilsu í sófanum heima með spil í hendi og handrit í hillunni nýbúinn að snæða góða gæsasteik í hreinni íbúð og ÞÁ FYRST get ég notið þess að vera einn af stoltum eigendum Glitnis banka.
Búist við tíðindum í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.