14.9.2006 | 03:00
Geymdur en ekki gleymdur...
Viti menn ég er vaknaður til lífsins. Sumartörnin búin, sumarafslöppunin búin og tími til kominn að bretta uppá ermarnar og taka til verks. Nóg er af verkefnum framundan og skemmtileg tíð að ganga í garð.
Nýjustu fréttirnar eru að í gær hlaut ég eins konar stöðuhækkun í Prentmet. Ég er héðan í frá hættur að selja fyrir þá og hef tekið við stöðu Verkefnisstjóra markaðs og tæknisviðs. Þetta er í kjölfar þeirra verkefna sem ég hef verið að sinna síðastliðna mánuði og voru farin að taka ansi mikinn tíma frá sölunni. Nú fæ ég tækifæri að sinna þessum verkefnum af einurð og skila þeim af mér 100%. Þetta er líka töluvert nær mínu áhugasviði heldur en sölumennskan þótt ég hafi alltaf haft mjög gaman að henni. Ég hlakka til að takast á við nýju verkefnin og er þakklátur fyrir það tækifæri sem mér hefur verið veitt.
Stefanía mín er á fullu í skólanum og stendur sig eins og hetja. Gaman verður að fylgjast með henni því ásamt MK hefur hún hug á að bæta við sig sérnámi í Snyrtiskóla og útskrifast sem snyrtifræðingur á einni önn. Það mun án efa taka á orkunni hennar en ég veit að m.v. það flug sem hún hefur verið á getur hún skapað sér hvaða tækifæri sem er og nýtt það í botn.
Ég sat í kvöld ásamt Óla vini og horfði á úrslitaþátt Rockstar Supernova. Magni datt út í kvöld og lenti í 4. sæti í keppninni. Að fylgjast með Magna hefur án efa gert mann stoltan því hann hefur staðið sig með sóma í allri keppninni og verið einn besti fulltrúi á erlendum vettvangi sem Ísland hefur átt. Alla keppnina hefur hann verið hann sjálfur og ekki verið að skreyta sig meira en þörf er á annað en Glysrokkarinn Lucas sem vann keppnina. Lukas var ekki mitt uppáhald en ég vona innilega að hann nái árangri með hljómsveitina. Hvað Magna varðar að þá veit ég það að hann mun ekki þurfa að örvænta því hann hefur sínt sig og sannað, nú er kominn tími til að njóta afrakstursins. Hann var óhræddur í þætti uppfullum af rokkurum að sína sitt rétta andlit sem fjölskyldumaður þegar kona hans og sonur mættu og sagði orðin "First and foremost I'm a father". Þetta ásamt hnyttnum svörum sem hann gaf dómurunum í Supernova voru hlutir sem sýndu að Magni er "alvöru" og það er það sem mun koma honum áfram.
Magni.... ég er stoltur af þér !
Jónsi, pabbi hennar Stefaníu, kíkti í heimsókn með Jónínu Freyju og Einar Óla um dagin. Það er alveg ótrúleg lífsgleði í manninum því ég man ekki það skipti sem ég hef hitt hann án þess að hann slái á létta strengi og lyfti upp stemningunni.
Ég átti leið framhjá veitingastaðnum hjá Teddu, mömmu hennar Stefaníu, og Begga í dag og kíkti við í súpu og kaffibolla. Allt gott að frétta á þeim bæ og nýja fyrirtækið komið á fleygiferð.
Ég er kominn á fullt í Dale Carnegie aftur þrátt fyrir að hafa ætlað að hvíla mig þessa önnina. Þegar Vignir þjálfari hringdi í mig og bað mig að gerast aðstoðarmaður í þriðja skiptið gat ég einhvernvegin ekki sagt nei og glaður er ég því námskeiðið hefur aðstoðað mig mikið við að halda mér við efnið og hafa einbeitningu á markmiðunum mínum til að stefna hærra. Nú eru tíu vikur eftir og það mun án efa halda manni á tánum fram að jólum.
Ég og Stefanía fórum til Spánar á Benidorm í sumarfríinu okkar ásamt Kela, Óla og Gerði systur hans Óla. Þetta var frábær ferð í alla staði og án efa gaman að prufa loksins vélnautið ógurlega sem ég hef heyrt sögur af í mörg ár. Mér tókst að halda mér á í 1 mín og 40 sek á rodeotækinu vígalega. Við lágum á ströndinni, kíktum í tívolí og rennibrautagarð, fórum í verslunarmiðstöð, borðuðum á góðum veitingastöðum og kíktum út á lífið. Frábær leið til að eyða 10 dögum í ágúst.
Henning vinur er loksins kominn heim úr Ameríkunni og hann stóð sig vel þar. Hann var í leiklistarnámi í New York Film Academy - Universal Studios Los Angeles location og fékk frábærar viðtökur. Hann átti einhverja möguleika á að vinna úti eftir námið en ákvað að koma heim. Það var nokkuð skrítið að sjá hann aftur eftir 9 mánuði í burtu því tíminn var fljótur að líða en hann hafði greinilega þroskast mikið og lært margt. Til hamingju Henning þú stendur þig vel.
Sveinbjörn frændi er búinn að eignast dóttur og ég held að það sé kominn tími til að kíkja á nýju frænkuna. Barngóði drengurinn loksins farinn að unga út sínum eigin. Ég hef ekkert heyrt frá þeim en síðast þegar ég talaði við hann var hann á leið með Láru uppá Fæðingardeild.
P.s. ég er ekki að venjast því að segja fæðingardeild því ég mismæli mig alltaf og segist hafa talað við hann þegar hann fór með hana á slysó. Ég er ekki alveg viss um að slysadeildin höndli að taka á móti þeim ófrísku ofaná allt annað.
Meira held ég að sé ekki í fréttum í bili en þar til næst bið ég að heilsa !!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.