Svakalega hressandi verslunarmannahelgi !!!

Eins og ég byrjaði á því að vera ósáttur við þessa helgi áður en hún byrjaði, af þeirri einföldu ástæðu að ég flykktist ekki út á land með hressu hjörðinni sem ég er nú vanalega meðlimur í, að þá endaði ég barasta mjög sáttur í dag !!!

Ég tók vel á því með vinum mínum á föstudagskvöldinu og kíkti í smá teiti heima hjá Reynir vini mínum með Henning og Óla. Þar sátum við og drukkum mjöð fram eftir kvöldi, horfðum á David Bowie á DVD (sem var áhugaverðara en ég hefði búist við) þar til leiðin lá niður í bæinn. Við hittum þennan líka hressa leigubílstjóra sem var með óbeit á Svíþjóð. Eftir að hafa heyrt hressandi comment frá honum um hvernig pósthúsin í Svíþjóð eru verri en allt og hvernig sænskt kvenfólk er ruglaðara en allt að þá gat Reynir ekki meira og sagði "Ég er ósammála ég svaf einu sinni hjá sænskri píu". Leigubílstjórinn ætlaði að hoppa uppúr þakinu yfir því að eitt kvöld væri ekki samanburður við samband í 5 ár við eina kolbilaða sænska og við sauðirnir í aftursætinu skemmtum okkur konunglega við áhorfið. Við greiddum manninum og héldum beinustu leið í svitafýluna á Celtic Cross. Kvöldið samanstóð af flakki hingað og þangað þar til við gáfumst upp og héldum heim til Reynis þar sem við sötruðum síðasta bjórinn og sofnuðum. Laugardagskvöldið var síðan slökunarkvöldið mitt. Restin af helginni var slökun sem samanstóð af mjög ánægjulegri ferð uppá Ruby Tusday og svo Kofann seinna um kvöldið og svo bústaðarferð með fjölskyldunni á sunnudaginn. Bústaðurinn var nú reyndar til að undirbúa fyrir "ættarmótið" sem haldið var í dag á frídegi verslunarmanna þar sem ættarfaðirinn hann afi Dengsi heitinn hefði orðið 80 ára í dag og við hittumst fjölskyldan til að minnast hans. Það var hin besta skemmtun í alla staði og saman átum við hamborgara, grilluðum pulsur, drukkum kók og reyndum að muna nöfnin á öllum þessum barnaskara sem er kominn í fjölskylduna. Þetta er orðin svo ótrúlega stór fjölskylda sem ég er í og mikið af börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum að ég held að eina lausnin sé í næstu veislu að hjörðin gangi með nafnspjald framaná sér. Í lok dags endaði ég á trampolíninu með börnunum með þá löglegu afsökun að ég væri að halda þeim félagskap sem hressi frændinn (í raun og veru er mig búið að dauðlanga til að hoppa á þessu trampolíni frá því fjölskyldan keypti það en ég var alltaf of stór til þess). Ég og Lára kærasta Sveinbjörns frænda enduðum á trampolíninu með krökkunum og það endaði með því að Sveinbjörn sjálfur ákvað að fá sér hressandi hopp. Þá flúðu börnin úr trampolíninu (enda vita flestir hvernig Sveinbjörn er þegar hann hressist við og við "fullorðnu krakkarnir" sátum eftir. Eftir nokkur karlmanleg högg í öxlina og macho bull á milli mín og Sveinbjarnar ákvað ég að halda þessu hressandi fjöri gangandi með því að hoppa í heljarstökk sem gekk ekkert smávegis vel. En þegar ég sagðist ætla að taka eitt afturábak að þá var nú komið annað hljóð í kallinn... Sveinbjörn greinilega orðinn ábyrgur og hann réði mér frá þessu !!! Ég hlustaði ekki á góð ráð frekar en fyrri daginn og sit hér uppi í rúmi tognaður frá hálsi og niður í bak. Ég s.s. lenti á hausnum og mér tókst ekki einu sinni að hitta naglann á höfuðið þótt fallið hafi verið flott. Lára hló að mér, Sveinbjörn hló meira, Stefán gerði gis og ég lá lamaður með hreyfigetu. En að öllu gríni slepptu að þá er þetta tognun sem fer vonandi á næstu dögum og ég vil því biðja allar sætar stelpur að labba bara fyrir framan mig næstu daga því ég mun eiga erfitt með að snúa hausnum fyrst um sinn !!!

Yfir og út

Ps. hérna er mynd af mér frá því í Róm á spítalanum... Alltaf ferskur !!!

DSC00033


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband