Erum við að kaupa Færeyjar ?

Það er gaman að fylgjast með fréttaflutningi þessa dagana. Fjölmiðlar færa sig æ meir í þá átt að fletta ofanaf gömlum syndum og sárum sem legið hafa ógróin í fjölda ára. Einnig eru orðnar ansi algengar fréttir af því sem augljóst er en enginn mótmælir. Bankarnir sem dæmi eru með 20% vexti á sínum lánum hérlendis en keppast í alltöðrum vaxtaprósentum á þeim mörköðum sem þeir vinna sig inná þessa dagana í Evrópu. Af hverju keppast þeir ekki innbyrðis um að lækka vexti hérna heima. Þetta er farið að minna á olíufélögin. Fólk spáði ekkert í bensínkostnaði það bara fór á næstu stöð. nú fagna menn að líterinn kosti aðeins 110 kr. Það er bara alltof mikið. Fólk virðist ekki kunna eða nenna almennt að leita sér bankaviðskipta m.v. vaxtagreiðslur. Við bara förum í bankann með flottustu auglýsingarnar eða þann sem er staðsettur næst okkar heimili eða vinnu.

Af forvitni skoðaði ég vefsíður allra banka landsins núna fyrir stundu síðan og mér brá. Ég sá 37 mismunandi heiti á lánum og margir bankar höfðu sömu lánin. Einnig fann ég 34 mismunandi kortategundir sem standa fólki til boða á íslenskum markaði.

Margir fjársterkir aðilar á íslenskum markaði stóla á það að við vinnum okkar vinnu eins og afturgöngur, mætum heim og hugsum um heimilið með ábyrgð og borgum okkar reikninga fyrir þeirra vörur og þjónustu í þegjandi þögn.

Við spáum ekkert í þessu, við bara borgum. Ég t.d. legg ekki leið mína á Atlantsolíu til að taka bensín jafnvel þótt öll hin olíufélögin hafi snuðað mig og aðra um pening í verðsamráðinu. Spáið í því að ég ætti að vera að leggja þessari baráttu stuðning en það er bara svo þægilegt að fara í Olís á horninu eða Select á leið í vinnu.

Ég ætla frá þessum degi að skoða öll þau fyrirtæki sem ég versla við og leita mér verða á öllum þeim vörum sem ég þarf. Ég ætla að skera niður. Ég ætla að hringja og leita upplýsinga. Bjóði tvö fyrirtæki sama verðið fyrir sömu vöruna mun ég versla við það fyrirtæki sem annaðhvort styður samfélagið betur eða jafnvel einhver góðgerðasamtök. Ég ætla að skrá niður allt það sem ég finn út svo ég geti miðlað þessum upplýsingum. Það verður gaman að sjá hversu mikið maður hefur sparað og hvað það leiðir af sér þegar uppi er staðið.

Það sem kveikti í þessari hugsun eru fréttir af því að Færeyjarbanki er til sölu. Getgátur bloggara Íslands eru þær að Íslendingar geti keypt Færeyjar gróft til orða tekið. Færeyskur aðili sem vitnað var í hélt því fram að uggur væri í Færeyjingum og Dönum um það hversu mikið Íslendingar eru að kaupa þessa dagana. Hversu mikið við eignumst. Við viðskiptavinir bankanna erum að borga fyrir öll þessi kaup en áhættan er alltaf sú að þegar þessir aðilar hafa tekið allan okkar pening að þá flytji þeir úr landi til að hagnast ennþá betur.

Geti ég séð að bankarnir verði bókað staðsettir hér á Íslandi til frambúðar mun ég glaður borga það sem þarf til að þeir ávaxti okkar peningum og borgi vel í ríkissjóð. En sé möguleiki á að þeir fari úr landi tel ég að fjandinn sé laus og þá skoða ég alvarlega að geyma budduna undir koddanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband