Orkan í hámarki !

Það er aldeilis sem líf er komið í kallinn með hækkandi sól og hita. Helgin var til fyrirmyndar í alla staði og þrælskemmtileg í það minnsta. Föstudagskvöldið var líkt og afslöppun þar sem ég Stefanía og Fribba skelltum okkur í keilu. Seinna um kvöldið ákvað Stefanía að kíkja í heimsókn til Fribbu á meðan ég fór til Óla og Kela. Þeir voru heima hjá þeim síðarnefnda að spila pool og spil í kjallaranum. Alltaf gaman að eiga góða vini. Að þeim átökum loknum var farið heim að lúlla. Laugardagssólin reis en ekki ég. Ég og Stefanía sváfum langt fram yfir hádegi. Þreytan aðeins farin að síga á. Í mesta hasar skelltum við okkur af stað í sund og að því loknu fór ég niðrá Madonna pizza að borða með vinnufélögunum á meðan Stefanía fór að hafa sig til með Fribbu. Ég og vinnufélagarnir héldum síðan sprækir, eftir einn eða tvo öl og pizzu, uppí keiluhöll þar sem stefnan var tekin á keilumót og bjórkvöld. Stefanía og Fribba hittu mig þar seinna um kvöldið. Eftir þrælskemmtilegt mót og heilan helling af allskonar glundri skelltum við okkur í bæinn á Gaukinn og Hverfisbarinn. 

Sunnudagurinn byrjaði á kveðjustund. Stefanía var á leið norður í heimsókn til pabba síns og Ágústu og þessvegna þurfti ég að rífa mig upp á rassgatinu með eftirköst eftir átök kvöldsins sem á undan leið. Ég skutlaði henni út á flugvöll og kvaddi hana með faðmlagi og kossi. Eins og í alvöru amerískri ástarþvælu stóð ég við grindverkið og horfði á eftir flugvélinni þjóta af stað uppí loftið. Þetta urðu viss viðbrigði þar sem ég og hún höfum varið nánast öllum stundum saman síðan við kynntumst og ekki mikið upplifað fjarlægðir. En að sjálfsögðu er þetta ekki bara eðlilegt heldur bara nauðsynlegt að fá smá tíma í sundur til að geta verið þakklátur fyrir það sem við eigum saman og ég með mína óstöðvandi jákvæðni ákvað að nýta tækifærið í að gera eitthvað af viti. Og viti menn við tók einn öflugasti dagur sem ég hef átt í langan tíma og ég fann fyrir einhverri gamalli orku krauma í mér. Af flugvellinum hélt ég heim á leið og ákvað að leggja mig, það enntist í hálftíma þar sem ég vildi nýta daginn. Ég hringdi í nokkra vini og kunningja og eins og ég gat sagt mér sjálfur voru þeir allir þunnir og vitlausir heima sofandi. Ég ákvað á þeirri stundu að láta það ekki stoppa mig og ég fór einn í sund, synti smá og slakaði á í pottinum. Að því loknu ók ég niðrá Shell til að þrífa bílinn sem ég og gerði. Að innan sem utan, hátt og lágt með gljásápu, tjöruleysi og öðrum hjálpartækjum. Þegar ég sá að gljáinn yrði ekki meiri hringdi ég í félaga minn og reif hann með mér úr draumaheiminum og niðrí bæ. Þar slökuðum við á í sólinni á Austurvelli áður en við héldum í Kringluna í kaffibolla. Það var svo gaman að hitta gamlan vin í fyrsta sinn í langan tíma að þegar hann fór heim sótti ég bara næsta og fjörið hélt áfram. Fyrst kíktum við í heimsókn til Tammý frænku sem var að kaupa sér íbúð.Þar á eftir skelltum við okkur í Álfheima til að fá okkur ís því í hitanum er alltaf gott að fara í ísbíltúr. Eftir það urðum við eirðarlausir og héldum í áttina til Elliðavatns þar sem við ætluðum að kanna hvort einhverjir veiðimenn hefðu náð í afla en áður en við náðum alla leið stoppuðum við hjá Rauðavatni og Árbænum þar sem ég varð vitni að sinubruna. Ég stoppaði bílinn og hljóp út og skildi vin minn eftir með eitt stórt spurningarmerki í framan. Ég hringdi um leið í slökkviliðið og ræsti þá út áður en ég hljóp í nærliggjandi hús og varaði íbúa við sívaxandi eldi. Ég fékk lánaða hrífu og var að byrja að berjast við eldhafið til að bjarga því sem bjarga mátti þegar slökkviliðið mætti á svæðið aðeins 3-4 mínútum eftir að ég hringdi. Þegar eldurinn hafði verið yfirbugaður héldum við áfram okkar leið uppá elliðavatn og þar fengum við delluna beint í æð. Við keyrðum beinustu leið uppá Reynisvatn þar sem við keyptum okkur leyfi og svo fórum við heim að ná í stengurnar. Við slökuðum á við bakka Reynisvatns í 3 klukkutíma og renndum fyrir fiskinn sem vildi ekki bíta á. Þegar uppgjafarstund kom í veiðina héldum við heim á leið þar sem Óli fór heim að borða og ég fór heim og tók til í íbúðinni og þreif hana hátt og lágt á hálftíma klukkutíma. Orkan var alveg í hámarki. Óli og Keli komu skömmu síðar og við horfðum á video með snakk og kók. Að því loknu gafst ég upp, rak þá heim og fór að sofa.

Ég ákvað að sitja ekki aðgerðarlaus á meðan Stefanía færi norður og mér sýnist á öllu að það hafi tekist. Ef þetta heldur áfram verð ég búinn að bjóða mig fram til alþingis áður en næsta helgi kemur !
Munið bara... X-Helgi ... þar sem orkan er í hámarki !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband