8.5.2006 | 15:41
Helgin 5-7 maí
Þetta var viðburðarrík helgi eins og þær hafa verið margar í mínu lífi. Helgin byrjaði á fjörugum föstudegi þar sem ég skellti mér á Torvaldsen að loknum vinnudegi. Þar var samankominn hópurinn sem er búinn að fylgjast að í gegnum síðasta Dale Carnegie námskeið sem ég var á. Við borðuðum saman mat og skemmtum okkur fram á nótt. Maturinn var ágætur fyrir utan forréttinn sem ég hefði alveg getað sleppt. Þeir reiddu fram lax, skötusel og túnfisk nema hvað að þetta var allt hrátt. Ég er algerlega á móti sushi tískunni og hvað þá frekar græni viðbjóðurinn sem hét Wasabi og er sterkasti fjandinn sem fyrirfinnst sunnan Norðurpólsins. Hins vegar var kjúklingurinn í aðalréttinum og blauta súkkulaðikakkan alveg til fyrirmyndar. Eftir mat var hlegið, sprellað og slegið á létta strengi. Þegar leið á kvöldið tók ég áskorun og hélt uppistand til að skemmta liðinu. Stressið hafði verið að fara með mig nema hvað að ég fékk alla til að hlæja og fékk gott hrós fyrir svo eitthvað hlýt ég að hafa gert rétt. Að því loknu var dansað fram á rauða nótt eða þar til ég gafst upp og hélt heim á leið um þrjúleitið.
Laugardagssólin reis á loft og bar með sér ótrúlega gott veður. Því miður vaknaði ég heldur seint eftir átök liðinnar viku og fjörugs föstudags. Ég og Stefanía settum kraft í verkið. Hún lærði fyrir prófin og ég tók til hendinni við þrif og skipulag. Allt endaði þetta með snyrtilegri íbúð og kózý kvöldi. Fyrst kíktum við í stutta heimsókn til Fribbu vinkonu og að því loknu kom María í heimsókn til okkar. Við fengum okkur pizzu á meðan ég sinnti reglulegu iðjunni minni við að gera við tölvur. Það er eins og bilaðar tölvur elti mig uppi. Við horfðum á video fram á nótt því það er svo gaman að vera til.
Sunnudagurinn vakti okkur með alveg geggjuðu verði. Þetta var svo flott veður þegar við komum út barasta 18° hiti og blankalogn. Við ákváðum að nýta tækifærið og fara uppí bústað til mömmu og pabba og hjálpa til. Þegar í Borgarfjörðinn var komið tók á móti okkur rok og leiðindarkuldi því norðanáttin bar með sér svalar fréttir af jöklunum í kring.
Nú er kominn mánudagur og um að gera að fara að nýta daginn í eitthvað gott. Um leið og vinnan er búin held ég af stað vestur ásamt Robba vini mínum að hjálpa pabba en meira því markmið er að klára einn þeirra fyrir lok þessarar viku. Á dagskránni þessa vikuna er svo gönguferð á Úlfarsfell með Prentmet á morgun sem ég og Einar Óli ætlum að skella okkur saman í, bústaðarvinna öll kvöldin og svo keilu/bjórkvöld hjá Prentmet næstu helgi á laugardeginum.
Og nú fer ég að verða duglegri við myndirnar, eitthvað dettur inn á næstu dögum.
Kveðja
Helgi Þór
Athugasemdir
Hæ, hæ, já endilega farðu að setja inn fleiri myndir.
Kveðjur úr Grindavík, Björg.
Stefanía Björg Einarsdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2006 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.