Kreppan - frumsýnd árið 2008

Ég geri mér fyllilega grein fyrir vanþekkingu minni þegar kemur að stjórnun fjármála landsins þar sem ég hef ekki lokið háskólanámi í viðskiptafræði en sem neytandi, þjóðfélagsþegn, Reykjavíkurbúi og einstaklingur á vinnumarkaði sé ég að augljóslega erum við ekki teymd í rétta átt þessa dagana.

Ég veit ekki hver ástæðan er fyrir þessari gífurlegu verðbólgu en tel það helst vera íslensku græðgina. Allir vilja fá sem mest fyrir minnst. Einhvernvegin virkar þjóðfélagið á mig á þann máta að ekki er borin virðing fyrir samfélaginu þegar kemur að verðlagningu. Sem dæmi má nefna þá gríðarlegu hækkun matvöruverðs sem maður hefur orðið var við s.l. ár og þá helst eftir að matvælaskatturinn var lækkaður til að sporna við hækkun matarverðs. Ég hef því miður ekki séð þær krónur skila sér í minn vasa í alltof langan tíma. Og annað dæmi er hækkun eldsneytisverðs sem útskýrist að einhverju leyti með hækkun heimsmarkaðsverðs á olíu en ég spyr af hverju ríkisstjórnin bakkar ekki með þarfir neytenda í huga og lækkar skatta og tolla á meðan ástandið er sem verst og hversu mikil er álagning olíufélaganna því ef það er mælt í % fer ágóðinn skjótt hækkandi með heimsmarkaðsverðinu. Hvar er þessi samkeppni sem átti að koma frá Atlantsolíu? Það munar einhverjum 2kr. pr. líterinn m.v. dýru stöðvarnar og það er ekki nema 1,3% munur m.v. verðlagningu í dag. Í matvörunni má oft finna 50% mun á milli dýrustu og ódýrustu verslana. Ég spyr sem leikmaður er það þarft að raka inn hverri einustu krónu á meðan ástandið er svona (og það bitnar á þeim efnaminnstu) og hverju skilar það okkur til baka. Er þetta velferð og vestræn menning? Erum við ekki búin að vera jafn rík og við héldum allan þennan tíma? Vorum við sem þjóðfélag á neyslufylleríi á kreditkorti frá útlandinu?

Við ungt og vaxandi fólk í þessu þjóðfélagi sem reynum að koma framtíðarfótum undir okkur fáum þau skilaboð að sama hversu dugleg við erum í að fá störf og hækka launin okkar munu alltaf koma nýjar leiðir til að ná krónunum af okkur. Ég t.a.m. á engan vin sem er ekki annaðhvort útivinnandi eða í skóla og sama hvort er að þá virðist aukavinna vera bráðnauðsynleg til að lifa sómasamlegu lífi.

Ég mundi vilja fá fleiri útskýringar á mannamáli um efnahagsstjórnina, upptöku evrunnar, gjaldeyrisviðskipti, verðbólgu og annað því líkt svo ég þurfi ekki að ofreyna heilann í hvert skipti sem bankamann eða viðskiptamann eru að babla í sjónvarpinu með flottu löngu orðin sín. Þegar ég borga mig inn í bíó á danska bíómynd vil ég texta því ég skil dönskuna ágætlega en tala hana ekki reiprennandi. Í þessari bíómynd sem á sér stað núna í þjóðfélaginu er ég ekki bara aukaleikari heldur er ég að borga fyrir það líka!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband