Langavatn - 14. júní - 6 fiskar

Veiðistaður:    Langavatn í Borgarfirði
Dagsetning:   14. júní
Veiðimenn:     Helgi Þór og Óli Jóns.
Afli:                 6 fiskar  (3x 1/2 pund, 1x 1 pund, 1x 2,5 pund, 1x 4 pund)
Stærstur:        4 lbs

Héldum félagarnir af stað út úr bænum að loknum vinnudegi. Fórum með sendingu í sumarbústað og ákváðum að skella okkur í smá veiði í leiðinni fyrst við værum komnir svona langt. Við völdum Langavatn framyfir Hítarvatn þó að við höfum ávalt skemmt okkur vel þar. Vegurinn var grýttur og erfiðari en við bjuggumst við og lengri en við áttum von á. Loksins sáum við í vatn svo við skelltum saman stöngunum og hentum út í. Þegar smá tími var liðinn stóð Óla ekki á sama þar sem fiskurinn ataðist á fullu í færinu mínu en ekkert að gerast á hans vígvöllum. Tók tvær 1/2 punda bleikjur á land og henti þeim báðum útí. Seinna um kvöldið kom ein slík í viðbót sem ég hafði sært of mikið til að sleppa. En þá kom fyrsti fiskurinn sem eitthvað tók í og það var rúmlega 1 punda bleikja. Ekki mikið en þó meira fjör en annað. Svo kom einn vel sterkur urriði á stöngina og sá reif í. Landaði honum á smá tíma og það var 2,5 punda urriði. Þegar Óli var orðinn ansi súr fékk hann uppreisn sinnar æru og setti í eitt 4 punda kvikindi sem reif harkalega í. Skemmtum okkur konunglega og munum bókað fara aftur.

Langavatn 2004 _2[1]


Vífilstaðarvatn - 19. maí - 0 fiskar

Veiðistaður:    Vífilstaðarvatn
Dagsetning:   19. maí
Veiðimenn:     Helgi Þór
Afli:                 0 fiskar 

Skrapp í stutta stund í Vífilstaðarvatnið eftir að hafa skutlað Stefaníu í vinnuna. Gekk suðurströndina og beytti Makríl og svörtum Toby spún en allt kom fyrir ekki. Reyndar var þetta bara stutt skot því ég var aðeins tvo klukkutíma við vatnið. Varð ekki var. Smá rok en engin rigning. Þetta var á milli 19.30 og 21.30 um kvöldið.

vifilstadarvatn_vesturbakkinn

Vifilstadarvatn


Kleifarvatn - 18. maí - 0 fiskar

Veiðistaður:    Kleifarvatn
Dagsetning:   18. maí
Veiðimenn:     Helgi Þór, Stefanía Björg, Óli Jóns og Róbert Örn.
Afli:                 0 fiskar

Héldum félagarnir ásamt Stefaníu í Kleifarvatnið að loknum löngum vinnudegi. Lögðum af stað kl. 21.00 útúr bænum og vorum byrjaðir að veiða kl. 21.40. Róbert var hinsvegar lagður af stað heldur fyrr og byrjaður að veiða þegar við komum. Fyrst reyndum við að renna fyrir fisk á tangaum neðan við Syðri Stapa en ekkert að fá þar. Botninn var heldur grýttur og ég sleit tauminn einu sinni með sökkunni á og sá því að flotið væri rétta nálgunin. Við ákváðum um 11 leytið að færa okkur til og fórum í botninn á milli Lambatanga og Þorvaldseyrar. Þar var sandfjara og grynningar langt út en þó með smágrýti í botninum. Ekki var auðvelt að renna fyrir með sökku þar. Veiddum framyfir miðnættið en veiddum þó ekki fisk. Fékk einstaka gróður á þríkrækjuna en ákvað þó að nýta veiða&sleppa tæknina á gróðurinn. Þetta mun ganga betur næst og tekinn verður betri og lengri tími í Kleifarvatnið þá.  Mjög skemmtilegt svæði til að veiða á.

Kleifarvatn - kort

Silungatjörn - 12 maí - 11 fiskar

Veiðistaður:    Silungatjörn
Dagsetning:   12.-13. maí
Veiðimenn:     Helgi Þór, Stefanía Björg, Óli Jóns og Róbert Örn.
Ferðalangar:  Halla og Embla Nótt.
Afli:                 11 fiskar

Fyrsta veiðiferð sumarsins var þegar við vinirnir skruppum í Silungatjörn rétt fyrir utan Reykjavík. Róbert vinur minn á sumarbústað við vatnið og við renndum fyrir fisk þar. Þetta var laugardagskvöldið 12. maí og við gistum í sumarbústaðinum hans Róberts. Þetta var merkilegt kvöld þar sem bæði voru Alþingiskosningar og Eurovision. (Þessar Alþingiskosningar leiddu til fyrsta stjórnarsamstarfs Sjálfstæðismanna og Samfylkingar). Við komum seint og grilluðum. Byrjuðum ekki að veiða fyrr en kl. 22.30. Róbert reyndi maðkinn á flotholti á meðan ég og Óli settum makrílinn á með sökku. Makríllinn reyndist vera aðalmálið og fiskurinn beit á agnið eftir innanvið mínútu. Stefanía halaði inn þennan fyrsta fisk sumarsins. Ég tók svo einn þar á eftir. Báðir reyndust pundarar. Stefanía tók inn þriðja fiskinn sem var tvö pund. Þar á eftir tók Óli tvo fiska pund og tveggja pundara og ég tók þann sjötta sem var pundari. Þetta gekk á fram til miðnættis. Seinna um nóttina kl. 1.00 tók Óli einn pundara í viðbót. Skemmtilegur endir á góðu kvöldi og við héldum uppí hús til að sötra öl.

Daginn eftir var haldið út að vatni eftir að húsið hafði verið þrifið og skilið eftir í góðu ástandi. Þá var makríllinn aftur málið og Stefanía tók sinn þriðja fisk í ferðinni. Skömmu seinna tók Róbert tvo fiska og Óli einn í viðbót. Glæsileg ferð og afli uppá 11 fiska.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband